Mótmælaalda hefur riðið yfir Pólland undanfarna sjö daga í kjölfar þess að pólski stjórnar­­skrár­­dóm­­stóllinn sam­þykkti í síðustu viku að ein­­göngu yrði heimilt að fram­­kvæma þungunar­rof ef líf móður væri í hættu eða ef kona yrði barns­hafandi eftir nauðgun eða sifja­­spell.

Al­­gengasta á­­stæða fyrir þungunar­rofi í Pól­landi á síðasta ári var fóstur­­gallar. Á síðast­liðnum árum hefur þungunar­rof í 98 prósentum til­vika verið fram­kvæmt þar sem fóstur þótti ekki líf­væn­legt. Dóm­­stóllinn komst hins vegar að þeirri niður­­­stöðu að ekki væri hægt að skil­yrða líf fósturs við heilsu þess.

Í kjölfarið hafa blossað upp hörð mótmæli í Póllandi sem og í samfélögum Pólverja um allan heim. Í Póllandi hafa mótmælendur meðal annars lokað fyrir bílaumferð, skipulagt mótmæli fyrir framan kirkjur og truflað messur. Í gær, þriðjudag, skipulögðu mótmælendur verkfall kvenna víða um Pólland, í mörgum tilvikum með leyfi vinnuveitenda.

Brynja Hjálmsdóttir rithöfundur er búsett í Kraká, skammt frá aðalsamkomustað mótmælenda í borginni, og lýsir því að hafa heyrt beljandi sírenuvæl, háreysti, trommuslátt og þyrlulæti daglega síðastliðna daga. „Það var mikið grátið á heimilinu núna síðasta miðvikudag, þegar þessum furðulegu reglum var troðið gengum þingið,“ segir Brynja.

Kvenréttindasamtökin Dzi­ew­uchy Is­landia hafa staðið fyrir mótmælum við pólska sendiráðið hér á landi síðastliðna viku þar sem þungunarrofslögunum er harðlega mótmælt. Einn af skipuleggjendunum, Sajja Justyna Grosel, segist finna fyrir mikilli samstöðu meðal Pólverja á Íslandi en að staðan í heimalandinu sé afar eldfim.
„Stjórnvöld í Póllandi eru meðvitað að reyna að sundra þjóðinni og hvetja fylgismenn sína til þess að standa uppi í hárinu á mótmælendum. Staðan er grafalvarleg og fólk óttast hreinlega að borgarastyrjöld gæti brotist út,“ segir Sajja. Hún segir að mótmælin séu rétt að byrja og að á föstudaginn verði skipulögð gríðarleg mótmæli í höfuðborginni, Varsjá.