„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Keflavíkurflugvöll, fyrir Icelandair, fyrir Play og íslenskan efnahag allan, að við stöndum okkur jafn vel í endurreisninni og áfangastaðir í kring um okkur,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.

Ný spá Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, IATA, gerir ráð fyrir því að á næsta ári muni farþegaflug innan Evrópu aukast um 75 prósent og milli Norður-Ameríku og Evrópu um 65 prósent frá tölum ársins 2019.

„Ef við eigum að ná sama ávinningi og önnur lönd í Evrópu þá verða að vera sambærilegar aðgerðir á landamærunum hér og eru þar,“ segir Guðmundur. Þar vegi mest skimanir fyrir alla á landamærunum hér. Ekki sé eins þægilegt að koma til Íslands og samkeppnis­landanna.

Verður að vera samræmi í sóttvarnaraðgerðum

„Ef löndin í kring um okkur verða með mun léttari aðgerðir getum við ekki ætlast til þess að ná sama árangri. Við höfum alveg séð það skýrt að harðar aðgerðir á landamærum hafa áhrif á ferðavilja og á orðspor Íslands sem áfangastaðar,“ segir Guðmundur.

Að sögn Guðmundar stefndi í það í lok sumars að hingað myndu fljúga nítján flugfélög, en þau séu nú komin niður í fimmtán. „Flugfélög hafa verið að segja við okkur að þau séu að hugsa um að hætta að fljúga til Íslands vegna þess að það sé minni ferðavilji og þau hafa fullyrt við okkur að það sé út af aðgerðum á landamærum.“

Guðmundur Daði Rúnarsson er framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.
Fréttablaðið/Ernir

Bogi Nils Bogason, forstjóri Ice­landair, segir ljóst að aukið flækjustig hafi neikvæð áhrif.„Við skerum okkur úr miðað við önnur Evrópuríki hvað varðar þessa þætti og það hefur áhrif á eftirspurnina,“ segir Bogi. Samræmi í aðgerðum milli landa og fyrirsjáanleiki skipti mjög miklu máli.

„Það er ágætis eftirspurn eftir ferðum hingað núna en ef það verður þannig fram á næsta ár að það verði flóknara og dýrara að koma hingað en annað, þá hefur það áhrif á samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands,“ segir Bogi.

Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Fréttablaðið/Ernir