Óttast er að um 570 þúsund lítrar af olíu hafi lekið út í Kyrrahafið þegar gat kom á leiðslu fyrirtækisins Amplify Energy um fimm kílómetra fyrir utan Huntington Beach sem er úthverfi í Los Angeles.

Talið er að olíulekinn hafi fyrst hafist á laugardaginn og að olían sé búin að dreifa sér á um 30 ferkílómetra svæði í Kyrrahafinu.

Fyrir vikið eru dauðir fiskar og fuglar farnir að skola á land í Huntington Beach.

Yfirvöld í Los Angeles hafa beðið fólk um að halda sig frá svæðinu sem er vinsælt hjá brimbrettafólki.

Einföld skilaboð frá stjórnvöldum um að halda sig frá sjónum
fréttablaðið/getty

„Áhrif olíulekans á náttúrulífið á þessu svæði eru óafturkallanleg,“ sagði Katrina Foley, meðlimur í sveitarstjórn í Orange County í samtali við fjölmiðla vestanhafs og staðfesti að lekann mætti rekja til leiðslu frá olíuborpallinum Elly til meginlandsins.

„Við erum farin að sjá dauða fugla og fiska skolast upp á land,“ sagði Foley enn fremur sem taldi að olíulekinn hefði staðið yfir í lengri tíma en frá laugardagsmorgni þegar bandaríska landhelgisgæslan tók eftir olíu í sjónum við strendur Kaliforníu.