Óttarr Proppé, bók­sali, tón­listar­maður og fyrr­verandi heil­brigðis­ráð­herra tók við sem for­maður stjórnar UNICEF á Ís­landi á árs­fundi fé­lagsins sem var haldinn í gær. Óttarr, sem hefur setið í stjórn UNICEF á Ís­landi frá árinu 2019, tók við em­bættinu af Kjartani Erni Ólafs­syni.

„Það er mikill heiður að vera treyst fyrir þessu hlut­verki og að fá tæki­færi til að leggja mitt á vogar­skálarnar í þágu barna heimsins. UNICEF á Ís­landi er öflugt fé­lag sem býr yfir frá­bæru starfs­fólki sem brennur fyrir mál­efninu. Það hefur verið á­nægju­legt að fylgjast með hversu myndar­lega Ís­lendingar hafa sýnt stuðning sinn í verki til að hjálpa börnum um allan heim og hlakka ég til að taka enn meiri þátt í þessu mikil­væga starfi,“ segir Óttarr í til­kynningu.

Í stjórn UNICEF á Ís­landi sitja á­samt Óttari þau Sig­ríður Thor­la­cius, Kjartan Örn Ólafs­son, Guð­rún Nor­dal, Jökull Ingi Þor­valds­son og Guð­rún Hálf­dánar­dóttir auk þriggja nýrra með­lima sem tóku sæti í stjórn í gær. Þau eru Edda Her­manns­dóttir, sam­skipta­stjóri Ís­lands­banka, Hjör­leifur Páls­son, stjórnar­for­maður Há­skólans í Reykja­vík og Sýnar og Jón Magnús Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri Heilsu­verndar. Við bjóðum þau hjartan­lega vel­komin í hópinn.

Árið 2020 met­ár hjá UNICEF á Ís­landi

Á árs­fundinum, sem var haldinn í Mið­stöð Sam­einuðu þjóðanna, kynnti Birna Þórarins­dóttir helstu niður­stöður úr starf­semi lands­nefndarinnar á árinu 2020 og ný árs­skýrsla var gefin út. Tekjur UNICEF á Ís­landi á árinu 2020 námu rétt tæpum 800 milljónum og kemur fram í til­kynningu að hlut­falls­lega hæst fram­lög til bar­áttu UNICEF hafi komið frá Ís­landi.

„Árið 2020 var engu líkt og neyð barna í heiminum jókst til muna vegna á­hrifa kóróna­veirunnar. Meira en 1,5 milljarður barna varð fyrir á­hrifum skóla­lokanna, 80 milljónir barna undir eins árs aldri fóru á mis við reglu­bundnar bólu­setningar og efna­hags­þrengingar og aukin fá­tækt heimila jók á hungur barna. Það verður kapp­hlaup næstu ára að koma í veg fyrir að af­leiðingar kórónu­veirunnar verði ekki ára­tuga bak­slag í réttindum og vel­ferð barna. Það var því ó­metan­legt að finna fyrir slíkum stuðningi við starfið í fyrra. Nú sem aldrei fyrr skiptir ríku­legur stuðningur Ís­lendinga við börn heimsins miklu máli,“ sagði Birna Þórarins­dóttir, fram­kvæmda­stjóri UNICEF á Ís­landi, í til­kynningu.

Stærstum hluta fram­laga var varið til reglu­bundins hjálpar­starfs UNICEF í þeim löndum þar sem þörfin er mest og við­bragða við á­hrifum heims­far­aldurs CO­VID-19 á börn. Einnig studdi fólk á Ís­landi dyggi­lega við börn í neyð í Jemen og söfnuðust sam­tals 22,5 milljónir í neyðar­að­gerðir UNICEF þar í landi.

Nýjustu árs­skýrslu UNICEF á Ís­landi má lesa hér.