Birna Dröfn Jónasdóttir
Föstudagur 3. febrúar 2023
22.45 GMT

Ég ætlaði aðeins að vera hérna í L.A. í nokkur ár en hér er ég enn þrjátíu árum síðar,“ segir arkitektinn og hönnuðurinn Guðlaug Jónsdóttir, betur þekkt sem Gulla Jóns.

Gulla ólst upp í Heiðargerði í Reykjavík ásamt móður sinni Kristínu Sighvatsdóttur og ömmu sinni og afa. Hún gekk í Hvassaleitisskóla og fór síðar í Menntaskólann í Reykjavík.

„Námið í menntaskólanum á Íslandi á þeim tíma var víðtækt en ekki mjög hnitmiðað í þágu arkitektúrs fyrir mig, en ég var á stærðfræðibraut og lagði mikla áherslu á stærðfræði og náttúrufræði,“ segir Gulla.

Þegar hún var aðeins nítján ára flutti hún til Los Angeles í Bandaríkjunum þar sem hún nam arkitektúr í SCI-Arc (Southern Cali­fornia Institute of Architecture) en skólinn er talinn einn sá besti í heiminum. „Á þessum tíma var arkitektúr ekki kenndur á Íslandi. Margir fóru til Danmerkur að læra og ég íhugaði hina og þessa staði til að fara og læra, eins og Berlín og Flórens,“ segir Gulla.

„Svo starfaði ég eitt sumar eftir MR hjá Húsameistara ríkisins og þar vann með mér kona sem heitir Hildur Bjarnadóttir og hún sagði mér frá þessum skóla í L.A. Ég sótti um, hringdi svo í mömmu og sagði henni að ég væri að fara til Ameríku, þarna hafði ég aldrei komið til Ameríku áður,“ segir Gulla.


Ég sótti um, hringdi svo í mömmu og sagði henni að ég væri að fara til Ameríku, þarna hafði ég aldrei komið til Ameríku áður.


Hún segir að móðir hennar hafi orðið hissa í fyrstu en hún hafi ekki þurft mikla sannfæringu til að leyfa Gullu að fara á vit ævintýranna. „Mamma hefur alltaf verið minn helsti stuðningsmaður og alltaf hvatt mig áfram. Hún var smá hrædd við þetta í fyrstu, hafði séð ýmsar bíómyndir frá Ameríku og hafði ekki aðra vitneskju um þetta mikilfenglega land en núna elskar hún að koma í heimsókn til Los Angeles,“ segir Gulla.

Spurð hvort hún sjálf hafi verið hrædd við að flytja ein af landi brott svo ung segir Gulla svo ekki vera. „Ég hef alltaf látið óttann til hliðar í lífinu, það er algjör óþarfi að láta stjórnast af honum,“ segir hún.

„Ég fór út og bjó á hóteli þangað til ég fann mér íbúð og einhvern veginn setti ég þetta ekkert fyrir mig. Svo varð þetta bara allt í lagi,“ segir hún.

Gulla ferðast mikið vegna vinnu sinnar en hún vinnur að verkefnum um allan heim. Hún segist njóta þess til fulls að ferðast og frelsisins sem hún býr við en Gulla á hvorki börn né maka. Hún segist hafa eignast fjölskyldu af vinum í L.A.
Mynd/Magnus Unnar

Líkar vel í Ameríku

Námið í skólanum tók fimm ár sem Gulla segir hafa verið erfið en skemmtileg. Að útskrift lokinni sótti Gulla um vinnu hjá tveimur þekktum arkitektum, Frank Gehry og Richard Meier. Henni voru boðin bæði störfin og tók starfi hjá Richard Meier sem þá var að byggja Getty-listasafnið í Los Angeles.

„Eftir útskrift fær maður leyfi til að vinna i Bandaríkjunum í eitt ár og það var stefnan. Svo fæ ég þessa vinnu og þetta verkefni sem við vorum að vinna við, sem var þá stærsta verkefni sem var verið að vinna í Ameríku,“ útskýrir Gulla.

„Ég var þarna í fjögur ár og þegar því var lokið fannst mér ekki spennandi að fara heim. Það var ekki mikið að gerast í arkitektúr á Íslandi eins og er kannski núna, svo hér er ég bara enn,“ segir hún og hlær sínum smitandi hlátri.

Gulla hefur alls ekki setið auðum höndum í Ameríku, hún hefur unnið að fjölda stórra verkefna og rekur sína eigin stofu. Áður en hún stofnaði stofuna starfaði hún meðal annars hjá Walt Disney Imagineering bæði í Los Angeles og Japan og Dodd Mitchell Design eftir fjögurra ára reynslu við hönnun að Getty-listasafninu.

Gulla hefur verið kölluð „næsta Zaha Hadid“, en Zaha er þekktur arkitekt og átrúnaðargoð Gullu. Fyrirtæki Gullu hefur verið valið eitt af 50 bestu hönnunarfyrirtækjum í Los Angeles og hefur Gulla hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín, en nýverið hlaut hún tvenn verðlaun fyrir bestu hönnun veitingahúss ársins á heimsvísu fyrir Esperanza í Kaliforníu og hún var valin leiðtogi ársins fyrir hótelhönnun.

Loftið á Michellin-staðnum Le Grand Restaurant í París minnir á demant en Gulla hannaði staðinn.. Meira má sjá af hönnun Gullu í þáttunum Að heiman – íslenskir arkitektar sem verða aðgengilegir á Sjónvarpi Símans frá 23. febrúar.
Mynd/Aðsend

Gulla hefur teiknað og hannað fjölda bygginga úti um allan heim og er meðal annars orðin þekkt fyrir hönnun hótela og veitingastaða en hún hannaði til dæmis tveggja Michelin-stjörnu veitingastaðinn Le Grand Restaurant í París, La Peer-hótelið í West-Hollywood, Macau Roosevelt-hótelið í Kína og Comal-veitingastaðinn á Chileno Bay Resort & Residences í Los Cabos, Mexíkó.

Gulla hannaði veitingastaðinn Esperanza sem staðsettur er við Manhattan Beach í Los Angeles en staðurinn er virkilega fallegur.
Mynd/Aðsend

Teymi Gullu er nú með fimmtán verkefni í gangi um allan heim. Meðal þeirra er íbúðaháhýsi í Los Angeles, hótel í Sádi-Arabíu, Miami, Los Angeles og á Krít í Grikklandi, 2.000 fermetra einbýlishús í Beverly Hills, heilsulind við ströndina og nokkrir veitingastaðir.

Cuff Chair-stóllinn sem Gulla hannaði er einstaklega fallegur.
Mynd/Aðsend

Gulla leggur mikinn metnað í hönnunina á öllum sínum verkefnum og heldur utan um þau öll og hefur yfir þeim yfirsýn. Hún segist hafa góðan grunn til að byggja á, vera skipulögð og að þolinmæði sé mikilvæg þar sem hvert verkefni geti tekið fjögur til fimm ár.

„Það tekur kannski fimm ár að byggja hótel og það þarf að hugsa fram í tímann. Ég þarf að hugsa um það hvað verði tímalaus hönnun eftir tíu ár,“ segir Gulla.

„Það er eitt það skemmtilegasta við vinnuna mína, að þurfa að hugsa fram í tímann og meta hvað verður fallegt eftir tíu ár. Þó að hótelið verði opnað eftir fimm ár þarf það að standast tímans tönn,“ segir hún.

Á ferð og flugi

Gulla ferðast mikið vegna vinnu sinnar og segir hún mikilvægt að kynnast þeim stöðum sem hún vinnur á. „Ég nota yfirleitt fyrstu dagana í að skoða landið og menninguna í landinu sem ég er að vinna í. Fá innblástur frá náttúrunni,“ segir hún.

„Það er ekki nóg að gúgla Hawaii til að kynnast landi og þjóð. Núna er ég að hanna hótel þar og þá ber mér eiginlega skylda til þess að fara þangað og finna fyrir sálinni í landinu. Kynnast fólkinu og menningunni til að geta gert verkefninu góð skil og skilið hvað fólk vill og hvað passar inn í landslagið og kúltúrinn,“ segir Gulla.

Gulla nýtur þess að búa í Los Angeles og segir hún borgina alþjóðlega.
Mynd/Magnus Unnar

„Arkitektúr er svo tilfinningaleg list. Þetta snýst ekki aðeins um að teikna og hanna heldur að skapa einhverja upplifun fyrir fólkið sem á eftir að vera í þessum rýmum. Það er alveg magnað hvað arkitektúr og hönnun getur haft mikil áhrif á líf okkar og tilfinningar, gert okkur glöð eða leið, lyft eða latt,“ segir Gulla.

Hún segir að sig hafi lengi langað að hanna byggingu á Íslandi, byggingu sem væri á einhvern hátt hluti af náttúrunni. „Íslensk náttúra er svo dramatísk og hefur haft mikil áhrif á mig og veitt mér mikinn innblástur. Það er mikil orka á Íslandi og mér finnst eins og Ísland sé fæðingarstaður náttúrunnar,“ segir Gulla.

„Það væri skemmtilegt að hanna byggingu á Íslandi sem væri hluti af náttúrunni. Öll mín verkefni eru svo staðbundin og þau eru mjög sérstæð. Það væri gaman að blanda byggingu inn í þessa dramatísku náttúru sem mér þykir svo vænt um,“ bætir hún við.


Það væri skemmtilegt að hanna byggingu á Íslandi sem væri hluti af náttúrunni.


Spurð að því hvernig tilfinning það sé að standa loks inni í tilbúinni byggingu sem unnið hafi verið að í fjögur til fimm ár, segir Gulla það sérstaklega þægilegt. „Þegar maður er búinn að teikna, hanna, skoða og velja allt í mörg ár, leysa allar þrautir og hindranir sem upp koma og fylgjast með byggingu rísa og verða að rými sem fólk hefur gaman af og nýtur, það er alveg stórkostlegt,“ segir Gulla.

„Mín ástríða er að taka þátt í að fegra heiminn, og það er eitthvað sem ég hef tekið eftir, hversu vel fólki um allan heim líður þegar náttúran og arkitektúr spila vel saman. Ég leitast við að enduróma fegurð náttúrunnar í einhverju sem er byggt af mannavöldum og að blanda saman náttúruheimum og manngerðum arkitektúr.“

Breytt eftir Covid

Eftir Covid ákvað Gulla að færa vinnuaðstöðu sína og er hún nú með stúdíó, gallerí og heimili, allt á sama stað. „Ég var alltaf með skrifstofu á Robertson Boulevard í hönnunarhverfinu í West-Hollywood en eftir faraldurinn fannst mér ekki sami sjarminn yfir þessu öllu og mig langaði að starfsfólkið mitt væri óhult og á öruggum stað,“ segir Gulla.

Hún segir að vel hafi tekist til og að bæði hún og starfsfólkið séu ánægð. Húsið sé stórt og staðsett í hæðum Hollywood og þar sé mikil ró. „Ég reyni að fara í göngutúr á hverjum degi og náttúran hérna í hæðunum er stórbrotin og mögnuð, það er eiginlega bara eins og maður sé í Suður-Frakklandi. L.A. er svo fjölbreytt, hér er maður í náttúrunni, svo tekur bara tíu mínútur að keyra niður á Sunset þar sem er allt önnur stemning og mikið af lífi og veitingastöðum,“ segir hún.


Ég leitast við að enduróma fegurð náttúrunnar í einhverju sem er byggt af mannavöldum og að blanda saman náttúruheimum og manngerðum arkitektúr.


„Við erum mjög ánægð með það að vera saman hérna í kyrrð og ró og geta farið út í garð og borðað þar hádegismat. Skrifstofan er á fyrstu hæðinni, gallerí á annarri hæð og svo bý ég á þriðju hæðinni þannig að þetta virkar mjög vel og er þægilegt,“ segir Gulla.

Meðan faraldurinn stóð sem hæst ákvað Gulla að vera á Íslandi og hér var hún í eitt ár. „Yfirleitt þegar ég er á Íslandi þá er ég hjá mömmu en þarna leigði ég mér íbúð í Þingholtunum og fannst frábært að vera þar,“ segir Gulla.

Hún segist hafa notið ársins á Íslandi, hitt vini og fjölskyldu og ferðast mikið. „Af því að ég var á Íslandi en að vinna í Ameríku þá var ég að byrja að vinna klukkan fimm á daginn sem er klukkan níu að morgni í L.A., svo ég hafði svolítið fría daga sem ég notaði í að teikna og skissa eða fara í göngutúr, svo hitti ég starfsfólkið og kúnna úti um allan heim á vídeó-fundum,“ segir Gulla sem vann nánast á hverjum degi í faraldrinum og hélt öllum sínum verkefnum gangandi.

„Flest verkefnin voru í teikningavinnu og allir gátu verið heima hjá sér að vinna, það var ekki byrjað að byggja í mörgum verkefnum svo þetta gekk allt upp,“ segir hún.

„Mér fannst dásamlegt að vera á Íslandi og ég held að ég hafi haft gott af því. Ég hafði verið á miklu flakki út um allan heim og það var gott að staldra aðeins við,“ segir Gulla.

Gulla var á Íslandi í eitt ár á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir. Henni fannst yndislegt að njóta tímans með fjölskyldu og vinum.
Mynd/Magnus Unnar

„Það var svo sætt að mamma kom kannski á hverjum degi með ferskt brauð úr bakaríinu og ég sagði henni að það væri kannski óþarfi að koma með ferskt brauð á hverjum degi en hún sagði bara: Ég hef ekki fengið að dekra við þig sem mamma á hverjum degi í þrjátíu ár svo ég kem með brauð á hverjum degi. Þetta var gaman og gott fyrir okkur báðar,“ segir Gulla og brosir.

„Svo hitti ég pabba og systkini mín og ferðaðist um landið án þess að það væri fullt af túristum, skoðaði til dæmis Vestfirði í fyrsta sinn,“ segir Gulla en hún er einkadóttir móður sinnar en á þrjú systkini hjá pabba sínum, verkfræðingnum og fyrrverandi handboltamanninum Jóni Hjaltalín Magnússyni.

„Það eru mikil forréttindi í því að geta komið í öruggt umhverfi á Íslandi í svona aðstæðum og ég er meðvituð um það og ég held að það hafi verið dásamleg gjöf að geta komið aftur til Íslands og notið þess að vera í öruggu og rólegu umhverfi. Ég var bara þarna, ekki að hoppa upp í flugvél og ferðast í hverri viku,“ segir Gulla.

Það hlýtur að taka ákveðinn toll af þér að ferðast svona mikið?

„Stundum gerir það það, en það er svo fyndið hvað maður venst þessu fljótt og mér finnst þetta auðvitað svo gaman. Oft er það þannig að þegar ég er búin að vera heima í svona tvær, þrjár vikur, þá er ég farin að hugsa: Jæja, hvert fer ég næst?

„Oft er það þannig að þegar ég er búin að vera heima í svona tvær, þrjár vikur, þá er ég farin að hugsa: Jæja, hvert fer ég næst?“ segir Gulla sem ferðast mikið vegna vinnunnar.
Mynd/Magnus Unnar

Þægilegt að vera frjáls

Allt frá því ég var ung hef ég haft þetta þakklæti fyrir fegurð og ferðalög og frelsi hentar mér vel,“ segir Gulla.

„Los Angeles er alþjóðleg borg, og hér hef ég eignast stóra fjölskyldu af fallegum vinum og viðskiptavinum og þegar ég ferðast út um allan heim eignast ég enn fleiri vini svo ég er vinarík alls staðar og það myndast sterk vinasambönd við hvert verkefni,“ segir hún.

„Ég er að njóta lífsins algjörlega til fulls og mér finnst þægilegt að vera frjáls, ég er ævintýragjörn, elska að ferðast um heiminn og gera nýja hluti,“ segir Gulla.

Svo þú getur horft stolt og ánægð á það sem þú hefur áorkað og skilið eftir þig?

„Já, ég er ánægð, en mér finnst ég alltaf vera að byrja og mig langar alltaf að gera meira,“ segir Gulla. „Hvert og eitt verkefni er sérstætt og það eru ákveðnir töfrar sem fæðast í hverju verkefni fyrir sig, og það er það sem hvetur mig,“ segir hún.


Allt frá því ég var ung hef ég haft þetta þakklæti fyrir fegurð og ferðalög og frelsi hentar mér vel.


„Ég lifi og hrærist í vinnunni, er alltaf með hugann við vinnuna og alltaf að fá nýjar hugmyndir en ég er samt líka góð í því að stoppa, slaka á, fara í spa, út að borða, fer mikið á listasöfn og gallerí og tónleika og dansa við hvert tækifæri.“

Spurð að því hvort hún hugi sérstaklega að því að halda sér á jörðinni þrátt fyrir mikla velgengni segist Gulla hreyfa sig, stunda göngur og jóga. „Ég ákvað að segja já við lífinu, segja já við tækifærum og láta óttann ekki stoppa mig. Það hefur gefið mér mörg tækifæri og ég hef fengið að kynnast svo mikið af fólki, fallegum stöðum og fengið að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt,“ segir hún.

„Ég held að ég sé þannig að eðlisfari að mér finnst montið fólk bara leiðinlegt. Þetta er bara vinnan mín, mín ástríða og ég spái ekkert öðruvísi í þetta. Mér finnst ég alltaf geta gert betur og ég er krítísk á sjálfa mig. Ég er með báða fætur á jörðinni og lít á lífið sem gjöf og ævintýri,“ segir Gulla að lokum.

Athugasemdir