Andrean Sigurgeirsson, dansari hljómsveitarinnar Hatara og Íslenska Dansflokksins, vakti athygli um helgina þegar hann klæddist stórum vængjum í regnbogalitum, á tónleikum Hatara í Moskvu í Rússlandi. Að sögn Andreans spratt hugmyndin upp eftir að hann flaggaði hinsegin fánanum í græna herberginu þegar Hatari keppti fyrir hönd Íslands í Eurovision.
„Við á Íslandi tökum honum bara eins og venjulegum fána en svo eru náttúrulega mörg lönd sem taka þátt í þessari keppni sem bara brjóta ítrekað á réttindum samkynhneigðra og þar á meðal er Rússland hvað fremst í stafni,“ segir Andrean í samtali við Fréttablaðið en hann segist hafa fengið fjölmörg skilaboð frá ungu hinsegin fólki í Rússlandi eftir að hann flaggaði fánanum.
„Ég lá bara uppi í rúmi hágrátandi yfir þessu, hvað heimurinn er ógeðslegur og hvað mannréttindi eiga bara langt á mörgum stöðum í heiminum og ég sagði við strákana, ef það kemur eitthvað til þess að við förum að ferðast til Rússlands að þá ætla ég með,“ segir Andrean. „Svo kom þetta bara í ljós að við vorum að fara út og þá vildi ég gera eitthvað klikkað.“

Bjóst við að yfirvöld eða tollverðir myndu gera vængina upptæka
Andrean minnist þess að hann hafi séð þátt af RuPauls Drag Race þar sem ein dragdrottningin klæddist stórum vængjum og segist hafa viljað gera eitthvað svipað. „Ég hafði samband við nokkra aðila sem ég vissi að væru handlagnir og talaði svo við Harald Leví, sem er í Þjóðleikhúsinu, sem að bjó til mekanismann og svo Alexíu Rós, saumakonu, sem saumaði vængina, og við gerðum þetta bara á viku og svo flaug ég út,“ segir Andrean.
„Svo var ég bara allan tímann á leiðinni út skíthræddur um líf mitt eiginlega bara,“ segir Andrean en hann líkir upplifuninni við það að hafa eitthvað ólöglegt í töskunni og bjóst við að yfirvöld eða tollverðir myndu gera vængina upptæka. „Mér fannst ég ekki geta treyst neinum,“ segir Andrean en þrátt fyrir að ferðin hafi gengið vel var hann mjög óöruggur og sífellt á varðbergi.

Róaðist þegar hann mætti á staðinn
Að sögn Andreans var upplifunin á því að vera í Rússlandi erfið en hann segir að hlutirnir hafi breyst þegar þau komu á staðinn sem tónleikarnir voru haldnir. „Þá fann maður fyrir aðeins svona samþenkjandi fólki og það róaði mig líka alveg gríðarlega að sendiherra Íslands hafi verið á staðnum,“ segir Andrean og leit á veru hennar sem ákveðna vernd.
„Strákarnir sjálfir voru náttúrulega líka svolítið smeykir bara með sitt gigg út af því að Hatari í sjálfu sér er í raun frekar hómóerótískt band, það sem þeir eru að gera uppi á sviði og myndi kannski ekki teljast hið mest hefðbundna,“ segir Andrean en hann segist ekki hafa viljað að fara með bandinu til Pétursborgar og sýna þar vængina af ótta við að einhverjir myndu ráðast á hann eftir að hafa séð atriðið.
Bjóst við því versta
„Þegar Hatrið mun sigra kom, sem var síðasta lagið okkar, tek ég smá dans og fer svo niður og set á mig vængina, og preppa, og ég man að ég hugsaði bara okei ef það er einhver í salnum með einhver skotfæri eða eitthvað þá vona ég bara að hann skjóti mig í magann af því það er auðveldast að laga það,“ segir Andrean en hann var þá tilbúin fyrir allt.
„Eftir að ég tók út vængina, fólk öskraði, það bara hágrét og maður fann alveg fyrir ástinni og hvað fólk var í rauninni bara frjálst þarna í smá tíma,“ segir Andrean og lýsir því að eftir að atriðið kláraðist hafi hann sjálfur farið að hágráta. „Ég er ennþá bara að fá fullt af emailum frá fólki sem bara þakkar fyrir þetta litla "act" því fólk er bara þaggað,“ segir Andrean að lokum.