Otrum hefur fjölgað mikið í skoskum ám síðustu ár vegna minnkandi mengunar og markvissrar hreinsunar í ám landsins. Skoski fjölmiðillinn The Scotsman fjallar um málið og ræðir við ljósmyndaranum Ross Lawford, sem fylgst hefur með otrum í fjölmörg ár. Hann vinnur nú að nýrri bók um otra og segir að almenningur geti nú loksins fengið tækifæri til að bera hin forvitnilegu dýr augum, en þau hurfu nær alveg úr breskum ám á síðustu öld. 

Skosk stjórnvöld hafa síðustu ár unnið markvisst að því að minnka mengun, til að mynda með því að banna ákveðin eiturefni og með því að hreinsa plast og rusl úr ánnum. Otrum fækkaði mikið í Bretlandi á sjötta og sjöunda áratug síðusta aldar í kjölfar mengunar og hurfu alveg frá Englandi og Wales.

Ljósmyndarinn Ross Lawford hefur varið síðustu fimmtán árum í það að fylgjast með og mynda þessar merkilegu skepnur sem búa víða um Skotlands og segist hann hafa tekið eftir mikilli fjölgun síðustu ár.

„Við erum enn að glíma við vandamál innan vistkerfisins, en mér finnst við klárlega vera að fara í rétta átt,“ hefur The Scotsman eftir honum. Segir hann bann stjórnvalda á losun ýmissa eiturefna út í náttúruna eiga sinn þátt í að bæta umhverfið í ám Skotlands, en otrar sem eru ofarlega í fæðukeðjunni blómstra í hreinna umhverfi. 

„Aukning í otra stofninum gefur flerium tækifæri til að sjá þessi fallegu og dularfullu dýr, sem við höfðum næstum tapað.“