„Að­koman hér á dag­gæslu­vellinum í Vestur­bergi. Hér erum við að passa ó­málga og skríðandi lítil börn og þegar við komum á morgnana byrjar ruslatínslan. Hér finnum við lummur, stubba og nammi­bita sem börn geta auð­veld­lega kafnað á. Við finnum beittar ál­dósir sem er búið að tæta og beygla svo sé öruggt að ó­viti meiði sig hratt og á­byggi­lega á því um leið,“ skrifar Sigur­gyða Þrastar­dóttir í færslu á síðunni Betra Breið­holt á Face­book.

Sigur­gyða er önnur tveggja dag­mæðra á Bangsa­koti í Vestur­bergi, en húsið, sem áður var róló­völlur leigja þær af Reykja­víkur­borg.

„Völlurinn sem fylgir húsinu er hins vegar fyrir alla og hingað geta allir labbað inn hve­nær sem er. Við erum því miður ekki með einka­leyfi á lóðinni sjálfri, getum ekki lokað eða læst vellinum eða gert ráð fyrir því að allt verði eins og það var á lóðinni eftir nóttina,“ segir Sigur­gyða.

Þær hafi því gripið til þess ráðs að skrifa orð­sendingu á húsið, þar sem þær biðla til þeirra sem nýta sér lóðina að ganga vel um. Þá séu rusla­fötur á svæðinu og mjög sjáan­legar.

„En þær eru ekkert notaðar. Þetta virðist vera þannig að ef fólki vantar ein­hvern stað til að fá næði eða hanga, þá eru þau þarna, hendandi sprautum, pokum, lummum og stubbum frá sér,“ segir Sigur­gyða.

Sigurgyða segir orðsendinguna sem þær skrifuðu á vegginn vera virta að vettugi. Ruslatunnurnar á lóðinni séu ekkert notaðar.
Mynd/Samsett

Hafa sent fjölda tölvupósta á borgina sem er aldrei svarað

Að sögn Sigur­gyðu hafa þær sent fjölda tölvu­pósta á borgina vegna slæmrar um­gengni á vellinum um­hverfis húsið og spurt hvort hægt væri að loka honum á næturnar.

„Fyrstu svörin sem við fengum var að við værum bara með húsið á leigu en ekki lóðina. Við ættum ekki lóðina, þetta væri al­mennings­garður og því gætum við ekkert sagt. Hvernig fólk gengur um lóðina kæmi okkur í raun ekkert við,“ segir Sigur­gyða. Þá hafi þeim verið bent á að ef þær hefðu eitt­hvað við þessi svör að at­huga gætu þær sent tölvu­póst með myndum af að­komunni.

„Við höfum sent fjölda tölvu­pósta með slíkum myndum, þeim er bara aldrei svarað.“

Sigur­gyða segir slæma um­gengni á slíkum svæðum vera þekkt vanda­mál sem erfitt sé að eiga við.

„Ég er búin að vera að vinna á leik­skóla og frí­stund við lóðir þar sem hefur verið að­staða fyrir ung­linga eða fólk sem er að dópa eða hanga. Þú getur hringt í hvaða skóla­starfs­mann á Reykja­víkur­svæðinu, og þau segja ná­kvæm­lega sömu sögu. Það er starfs­maður sem fer út alla morgna að tína upp sprautur, lummur, dósir, gler­flöskur, sígarettu­stubba, nammi­bréf,“ segir Sigur­gyða, og bætir við að hún og sam­starfs­kona sína eyði að jafnaði um tuttugu mínútum á hverjum morgni, áður en börnin mæta í vistun, að hreinsa svæðið.

Sigurgyða og samstarfskona hennar eyða að jafnaði um tuttugu mínútum á hverjum morgni í að tína upp sprautur, rusl og sígarettustubba.
Mynd/Sigurgyða Þrastardóttir

Kallar eftir fræðslu í unglingadeildum grunnskóla

„Hugsunin hjá fólkinu sem kemur hérna virðist vera að þau beri enga á­byrgð. Hér geta þau verið upp­reisnar­seggir, hent út úr sér lummunum og gengið um eins og svín til að ganga í augun á vinum sínum. Verið rosa­legir töffarar.“

Þrátt fyrir að fín­kemba svæðið á hverjum morgni hafa þær þó lent í því að börnin hafi fundið alls­kyns rusl á lóðinni.

„Við erum með tíu börn frá níu mánaða og upp í tveggja ára. Þau eru skríðandi mörg hver, þannig að við þurfum að fylgjast mjög vel með þeim þegar þau eru úti. Það hefur komið fyrir að þau hafi verið að hand­leika eitt­hvað sem okkur hefur yfir­sést, til dæmis kók­tappa, nammi­bréf og annað sem er hættu­legt að borða,“ segir Sigur­gyða. Þetta sé gríðarlega leiðin­legt og erfitt að eiga við.

„Ég kalla eftir því að það sé fræðsla í ung­linga­deildum grunn­skóla um góða umgengni og hvað gerist þegar börn gleypi til dæmis lummur eða sígarettustubba. Þetta getur verið mjög hættu­legt fyrir lítil börn, þau geta auð­veld­lega kafnað á þeim,“ segir Sigur­gyða, og bætir við. „brýnum fyrir börnunum okkar að ganga vel um. Við erum með lífið í lúkunum hérna.“

Eins og sjá má getur aðkoman oft á tíðum verið vægast sagt skelfileg.
Mynd/Sigurgyða Þrastardóttir