Norska lögreglan hefur birt myndband sem tekið var út lögregluþyrlu við björgunaraðgerðir í Ask í Gjerdrum í Noregi eftir jarðfallið sem varð þar síðasta miðvikudag. Myndbandið sýnir frá því þegar björgunarþyrla bjargaði þeim Monu Torp og Magne Ranum sama kvöld og jarðfallið varð. Þau höfðu orðið undir braki húss síns.

Myndbandið er tekið úr þyrlu lögreglunnar með hitamyndavél og sýnir samvinnu lögregluþyrlunnar og björgunarþyrlu sem bjargar Monu og Magne. Lögreglan staðsetti þannig fólkið með hitamyndavélinni og leiðbeindi síðan björgunarliðum hinnar þyrlunnar sem sótti það.

„Þau flugu yfir okkur og sóttu einn hér og einn þarna. Við sáum fólkið híft upp en lágum enn hérna föst. Síðan flugu þeir í burtu, því þeir urðu að koma fólkinu til aðhlynningar,“ sagði Magne í samtali við nrk.no. „Síðan komu þeir aftur að sækja okkur.“

Hitamyndavélin bjargaði lífum

Í umfjöllun nrk.no um málið segir að þróuð myndavélartækni lögreglunnar og hitamyndavélar hafi skipt sköpum í björgunaraðgerðunum í Ask. „Myndavélarnar í þyrlu lögreglunnar hjálpuðu við að finna fjölda fólks í rústunum eftir jarðfallið. Lögreglan staðsetti fólkið og síðan fór björgunarþyrlan og sótti það,“ segir Gunnar Arnekleiv hjá norsku lögreglunni.