Tekið er að hvessa all­hressi­lega undan ströndum Norður- og Suður-Karó­línu­ríkja í að­draganda fjórða stigs felli­bylsins Flor­ence. Út­lit er fyrir að stormurinn gangi yfir með miklum þunga í nótt eða fyrra­málið vestan­hafs. Síðan mun draga úr honum og næstu dögum en um það leyti sem hann ferðast norður yfir landið verður bylurinn orðinn að stormi.

Vind­hraði í bylnum mældist um sex­tíu metrar á sekúndu í gær. Í um­fjöllun Ars Techni­ca var tekið fram að venju­lega stafi þrenns konar hætta af felli­byljum. Það er að segja að sjávar­borð hækki og valdi flóðum, að mikil úr­koma valdi flóðum og svo er það vindurinn. Flor­ence telst ein­stak­lega hættu­legur felli­bylur þar sem út­lit er fyrir að hann hafi alla fyrr­nefnda þætti í för með sér. 

Chad Myers, veður­fræðingur CNN, spáði því í gær að stormurinn muni styrkjast áður en hann gengur á land. Verði jafn­vel fimmta stigs felli­bylur með vind­hraða upp á sjö­tíu metra á sekúndu. 

Þá hafa tug­þúsundir íbúa við strand­lengjuna flúið heimili sín. Margir hafa þar komið að tómum elds­neytis­dælum og tómum hillum í mat­vöru­verslunum á leið sinni frá strand­lengjunni. 

Hér fyrir neðan má sjá beina út­sendingu úr mynda­vél á sjó úti, nokkrum kíló­metrum frá ströndum Banda­ríkjanna. Eins og sjá má er tekið að hvessa all­hressi­lega.