Klara Ósk Elíasdóttir, betur þekkt sem Klara Elías eða Klara í NYLON, upplifði ótrúleg ævintýri árin sem hún var í NYLON. En hljómsveitin átti meðal annars lag á toppi breska vinsældalistans árið 2006.

Þegar Klara var aðeins tvítug fór hún í tónleikaferð með NYLON um Bretland þar sem stelpurnar hituðu upp fyrir hljómsveitirnar Westlife, Girls Aloud og McFly.

„Við fórum þrjá túra og spiluðum fyrir 11-20 þúsund manns á kvöldi og það var geggjað,“ segir Klara. „Þetta var klárlega einn þeirra hápunkta sem ég hef upplifað á mínum ferli. Ég held að ég hafi ekki kunnað að meta þetta á þessum tíma eins og ég geri núna en þetta var stórkostlegt og ég elska að rifja þetta upp.“

Mikill McFly aðdáandi

Hljómsveitirnar sem Nylon hitaði upp fyrir voru risanöfn í tónlistarbransanum. Flestir þekkja Westlife og Girls Aloud en ívið færri muna kannski eftir McFly sem átti þó nokkra stórsmelli sem ómuðu í útvarpi hér á landi. „Það klikkaðasta við þetta er að ég var örugglega stærsti McFly aðdáandi á Íslandi,“ segir Klara og hlær.

„Þetta var ruglað. Ég elskaði þessa hljómsveit og á þessum tíma var þetta fyrir mér eins og einhver núna fengi að túra með One Direction. Þetta var galið tækifæri,“ segir Klara og bætir við að hún hafi átt erfitt með halda andliti í kringum strákana í McFly. „Svo var þessi sem ég var mest skotin í alltaf með kærustuna sína með sér þarna baksviðs og mér fannst hún svo sæt og ég dáðist bara að þeim.“