„Það rekur hver heims­við­burðurinn annan hérna á Húsa­vík þessa dagana,“ segir Ör­lygur Hnefill Ör­lygs­son, hótel­stjóri á Húsa­vík, sem hefur varla stoppað í dag vegna undir­búnings fyrir Óskars­verð­launa­tökur í bænum.

Eins og greint hefur verið frá munu tökur fara fram í dag á sér­stöku Óskars­verð­launa­mynd­bandi í bænum. Þar munu sau­tján stúlkur frá Húsa­vík syngja lagið Husa­vik með sænsku söng­konunni Molly Sandén og er von á flug­eldum síðar í dag.

Mynd­bandið verður síðan sýnt á Óskars­verð­laun­há­tíðinni þann 26. apríl. Ör­lygur segir að verk­efnið hafi komið upp með mjög stuttum fyrir­vara. Staðan sé hins­vegar góð og allt að verða klappað og klárt fyrir þennan heims­við­burð.

„Hér er bara verið að stilla upp og klára frá­gang fyrir kvöldið. Þetta er bara ó­geðs­lega skemmti­legt og al­gjör­lega ein­stakt tæki­færi fyrir Húsa­vík.“

Eins og sjá má er mikill viðbúnaður við höfnina.
Fréttablaðið/Hörður

Það er væntan­lega mikil leynd yfir þessu öllu saman?

„Frekar mikil. En þetta komst samt í fréttir í gær og ekki leyndar­mál lengur að þetta sé að gerast. Það er ó­trú­legt að heill bær geti haldið leyndar­máli í svona marga daga. Það er kór í þessu og hljóm­sveit og allt en þetta hafði ekkert spurst út,“ segir Ör­lygur og hlær.

Hvernig er stemningin í bænum í dag?

„Hann er fullur af gleði. Það eru allir brosandi. Það eru allir á fleygi­ferð að klára allt saman og við erum með hörkulið með okkur hérna sem er að tækla þetta, True North er hérna og svo er Net­flix búið að vera á enda­lausum fjar­fundum að hjálpa okkur við þetta líka. Þannig við gætum ekki verið með betri mann­skap í þetta.“

Að­spurður að því hvort það verði ekki mikið af fólki í bænum á eftir þegar tökur hefjast um þrjú­leytið leggur Örlygur á­herslu á að sótt­varnir séu í há­vegum hafðar.

„Við erum auð­vitað að keppast við að halda allar sótt­varnar­reglur. Þannig við erum að reyna að halda svæðinu eins fá­mennu og hægt er og skipta mönnum í búbblur.“

Að verkefninu koma meðal annars True North og Netflix.
Fréttablaðið/Hörður