Í tilefni þess að Marsjeppinn Þrautseigja hefur nú dvalið í hundrað Marsdaga (sols) á Mars birti bandaríska flug- og geimvísindastofnunin NASA myndir frá dvölinni.
Síðan jeppinn lenti hefur hann náð ótrúlegum myndum í kringum lendingarstað sinn. Hlutverk Þrautseigju er meðal annars að rannsaka hvort ummerki um örverulíf megi finna á plánetunni auk þess sem jeppinn sinnir jarðfræðirannsóknum.
Jeppinn Þrautseigja er hannaður af NASA í samstarfi við kanadíska fyrirtækið Mission Control en gervi-jeppi var prófaður hér á landi sumarið 2019 og komu nemendur Háskólans í Reykjavík að rannsókninni.
Þrautseigja lagði af stað í 471 milljón kílómetra ferðalag sitt 30. júlí síðastliðinn og lenti þann 18. febrúar ásamt þyrlunni Hugviti (e. Ingenuity).
Hugvit er fyrsta flugfar mannkyns á annarri plánetu og braut blað í mannkynssögunni þegar það tókst á loft. Hugvit hefur tekið þó nokkrar loftmyndir af Mars.







