Sex ítalskar orrustuþotur af gerðinni F-35 komu til landsins í lok september til að sinna loftrýmisgæslu NATO. Nokkrir flugmenn hafa birt ótrúleg myndbönd af fluginu á Íslandi sem má sjá hér að neðan.

Loftrýmisgæsla ítalska flughersins hefur staðið yfir síðustu vikur og heitir aðgerðin „Northern Lightning“.
NATO

Flugmennirnir stunduðu aðflugsæfingar á Akureyri og á Egilsstöðum til 4. október. Ein orrustuþotan lenti á Akureyrarflugvelli af öryggisástæðum þann 27. september og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út til að flytja liðsmenn norður til að kanna ástand vélarinnar. Liðsmenn séraðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar og sérsveitar ríkislögreglustjóra önnuðust öryggisgæslu umhverfis vélina.

Um 140 flugmenn ítalska flughersins hafa tekið þátt í gæslunni og er þetta í fyrsta skipti sem slíkar þotur eru notaðar í loftrýmisgæslu.

Pascal Delerce hershöfðingi sagði að um væri að ræða stórt skref í átt að samþættingu nútíma bardaga flugvéla í verkefnum bandamanna sem sýni getu NATO til að horfa til framtíðar.