Guðrún Sigríður Ágústsdóttir, alltaf kölluð Sirrý, býr í fallegu húsi í rólegri götu nálægt Laugardal. Fyrir framan húsið þeytist til jólaskraut í snörpum vindhviðum.

„Ertu ekki svöng? spyr Sirrý þegar hún opnar fyrir blaðamanni og vísar til borðs í eldhúsinu. Hún er lærður matreiðslumaður, þó hún hafi ekki starfað við það í árabil, og reiðir fram dýrindis hádegisverð, ofnbakað blómkál, rauðbeður og sætar kartöflur og ilmandi súpu. Við eldhúsið á ganginum liggur Muggur, svartur hundur af labradorkyni. Hann lygnir aftur augum og leiðir hjá sér bæði gular og appelsínugular veðurviðvaranir.

Bjargað úr eldsvoða

„Muggur er nú gamall og tryggur fjölskylduvinur. Það má nú segja að hann hafi bjargað lífi mínu einu sinni,“ segir hún frá og lætur til leiðast að segja blaðamanni frá hetjudáð Muggs.

„Ég var ein heima og afskaplega slöpp. Fjölskyldan var í boði í næstu götu og ég hafði orðið eftir og ætlaði að búa til eitthvað gúmmelaði fyrir kvöldið en afi var að koma í mat. Ég skildi eftir pönnu með sykri á hellunni og brá mér aðeins niður að ná í bók með uppskrift tyllti mér á stól og sofnaði. Muggur hreinlega trylltist og vakti mig úr mókinu. Þegar ég rankaði við mér og ég komst upp í eldhús stóðu logarnir af pönnunni og ég óð inn í eldhúsið og náði í pönnuna og fór með hana út. Ég var auðvitað skömmuð af slökkviliðsmönnum þegar þeir komu seinna fyrir að fara inn í eldhúsið en ég var bara svo agalega hrædd um að kveikja í öllu hverfinu.“

Vatnajökull og Hnjúkurinn

Slappleikinn sem greip Sirrý þennan dag tengdist veikindum. Sirrý hefur greinst tvisvar með leghálskrabbamein. Fyrst árið 2010 og aftur 2015. Í síðara skiptið sem hún greindist mátu læknar lífslíkur hennar til eins til þriggja ára. Nú fimm árum seinna stendur hún fyrir útivistar- og hreyfingarátakinu Lífskraftur 2020. Tilgangurinn er að safna áheitum fyrir félögin Kraft og Líf. „Ég vil fagna þessum tímamótum og minna fólk á að lífið er þess virði að lifa því, þótt við séum veik eða höfum gengið í gegnum áföll og erfiðleika. Við getum öll meira en við höldum,“ segir hún.

Hún ætlar að ganga þvert yfir Vatnajökul í byrjun apríl með 14 útivistarvinkonum sínum og vill hvetja konur um land allt til að ganga og taka þátt í Lífskraftsgöngu í sinni heimabyggð. Í maí ætlar hún að ganga upp á hæsta tind landsins. Hvannadalshnúk og hefur boðið hundrað konum með sér í gönguna.

Sirrý hefur fengið til liðs við sig hóp kvenna sem stunda útivist og kalla sig Snjódrífurnar. Leiðangursstjórar yfir Vatnajökul og á Hvannadalshnúk eru Vilborg Arna Gissurardóttir, pól- og Everestfari, og Brynhildur Ólafsdóttir, Landvættaþjálfari og fjallaleiðsögumaður.

Ljósmóðirin greip í taumana

Reiknað er með að gangan yfir Vatnajökul taki tíu daga. Það eru einmitt tíu ár síðan Sirrý greindist fyrst með krabbamein.

„Ég var nýbúin að eignast mitt fjórða barn. Hann var sex mánaða gamall og ég var að reyna að koma mér í form eftir meðgönguna og það gekk illa. Ég fór í Hreyfingu í spinningtíma og eftir tímann leið yfir mig í búningsherberginu, ég komst ekki í sturtu, klæddi mig og vildi bara drífa mig heim. Á leiðinni út þá hitti ég fyrir tilviljun ljósmóðurina mína. Hún þekkir mig vel og tók á móti öllum börnunum mínum. Hún greip í mig og spurði mig: Bíddu ertu eitthvað veik? Ég horfði nánast í gegnum hana.

Hún sá skýrt að eitthvað mikið var að og ég var send til kvensjúkdómalæknis í skoðun sem sá einnig strax að heilsa mín var að bregðast og sendi mig þá og þegar í sýnatöku. Ég man enn mjög vel eftir stundinni á biðstofunni þar sem allir voru sendir út og við maðurinn minn sátum ein eftir. Við horfðumst í augu og vissum að nú fengjum við slæmar fréttir.“

Grunurinn reyndist réttur. Sirrý var komin með miklar blæðingar frá æxlinu sem skýrðu orkuleysið, æxlið var ekki skurðtækt og lá nærri lífhimnunni. Við tók lyfja- og geislameðferð.

Sirrý ásamt dætrum sínum, þeim Unu og Heklu, en hún segir börnin sín fjögur hafa tekist á við veikindi hennar á ólíkan hátt. Öll séu þau þó stolt af móður sinni.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Kannski er ég ekki enn búin að losa mig við hræðsluna. En með hverju ári sem hefur liðið og ég farið fram úr líkunum hef ég öðlast meiri trú á því að þetta verði allt í lagi. Og ég trúi því mestmegnis, að þetta verði bara allt í lagi. En auðvitað er efi. Hvað gerist ef ég veikist aftur? Þeim hugsunum skýtur stundum upp í kollinn.“

Sirrý veiktist meira en í fyrra skiptið. „Ég var nærri dáin úr flensu. Ónæmiskerfið mitt er svolítið skrýtið og hefur alltaf verið. Ég hef alltaf verið lág í hvítum blóðkornum. Ég fór hins vegar að stunda útivist og það vó upp á móti og gaf mér ómældan styrk.“

Fór til Nepal í göngu

Sirrý er alin upp á fallegasta stað í heimi, Bíldudal, að eigin mati við mikla útivist og íþróttir og hafði unun af því að fara á skíði. „Ég hef frá unga aldri haft gaman af útivist og elskaði að vera á skíðum. Ég fór að fara í göngur, gekk upp á Úlfarsfell, Helgafellið og einn daginn fann ég að ég gat þrammað tvisvar upp á Esjuna. Það er svo magnað að finna fyrir styrknum vaxa og finna að þú hefur stjórn á einhverju í lífi þínu þrátt fyrir erfiðleika. Að finna að maður getur klifið hærri tinda.

Ég lá uppi í rúmi einn daginn og sá auglýst ferðalag með Vilborgu og Kolbrúnu Björnsdóttur til Nepal, Annapurna í Himalaya fjallgarðinum. Mig langaði að fara og ákvað að slá til, lét engan vita. Ekki einu sinni manninn minn,“ segir hún og hlær og er sammála blaðamanni um að slíkar ákvarðanir séu þær allra bestu og stafi af djúpri þörf fyrir breytingar og ævintýri.

„Ég fann að þetta var rétt, eftir símtal við Kolbrúnu, og ferðalagið reyndist endurnærandi fyrir líkama og sál. Það varð líka upphafið að einhverju stærra, ég fór að taka ríkari þátt í útivist og krefjandi göngum. Það er svo sjálfseflandi að gera eitthvað sem reynir bæði á þig og er gefandi. Að stíga út úr erfiðum aðstæðum í lífinu og gera þær að þínum. Maður missir um tíma völdin í eigin lífi þegar maður verður alvarlega veikur eða verður fyrir áfalli. Maður þarf að finna vopn sín og taka þau aftur. Það er verkefnið.

Það er svo mikil hamingja sem felst í því og hefur áhrif á allt annað í lífinu.“

Lítil skref, litlir sigrar

Sirrý leggur áherslu á að þótt hún sé með verkefni sínu að minna á mikilvægi útivistar og sjálfseflingar í endurhæfingu og styðja við starf félaganna Krafts og Lífs þá eigi boðskapurinn við um fleiri. „Að það sé hægt að taka stjórnina og finna sína leið til að lifa lífinu af hugrekki og gleði. Það er svo flókið að vera manneskja og við getum orðið fyrir erfiðum áföllum og höfnun sem geta reynst jafnerfið og alvarleg veikindi. Ég hef stundum hugsað um það hvað ég eigi að segja við þá sem eru að berjast við að ná stjórn á eigin lífi en geta ekki stundað fjallgöngur, er ég að setja mig á háan hest hugsa ég þá? Ég vil það nefnilega alls ekki.

Það er auðvitað ekki allra að fara í fjallgöngur en ég er viss um að flestir geta fundið eitthvað sem nærir þá og gefur þeim kraft. Þetta var mín leið til að finna frið og hamingju. Það er svo gott að vita að það er hægt að taka lítil skref, eitt í einu, í mjög krefjandi aðstæðum og komast samt á toppinn. Ef það er eitthvað sem ég hef lært af þessum veikindum þá er það að þessir litlu sigrar í lífinu eru mikilvægir.“

Snjódrífurnar eru hópur fjórtán útivistarkvenna sem ætla að ganga þvert yfir Vatnajökul í byrjun apríl undir dyggri leiðsögn þeirra Vilborgar Örnu Gissurardóttur og Brynhildar Ólafsdóttur.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Sjúklingurinn frekur gestur

Sigrarnir hjálpa til við að vera eins lítið og mögulegt er í hlutverki sjúklings. „Það er ekki gott að gefa því hlutverki of mikið pláss en stundum er sjúklingurinn eins og frekur gestur sem vill endilega búa með manni. Þá verður maður að finna leið til að búa með honum þannig að hann sé ekki plássfrekur, sé ekki á öllum hæðum hússins!“

Hún segir ferðina töluverða áskorun. „En andinn er ofsalega góður í hópnum. Við komum úr öllum áttum en útivistin tengir okkur saman. Nokkrar konur í hópnum hafa gengið í gegnum krabbamein og sumar misst náinn ástvin. Ferðin er áskorun og ég viðurkenni að ég kvíði stundum fyrir, ég er nú bara mannleg, segir hún og brosir breitt. Ég hlakka þó meira til en kvíði ferðinni, við förum strax í byrjun maí og göngum í krafti kvenna upp á hæsta tind landsins, þjóðarfjallið okkar Hvannadalshnúk.“

Börnin hennar fjögur eru stolt af móður sinni að hennar sögn. „Þau gleðjast með mér. Þau eru ólík og hafa tekist á við þessa lífsreynslu með ólíkum hætti. Þau eru reyndar svo ólík að þau gætu þess vegna verið úr sitthverri heimsálfunni,“ segir hún og hlær.

Eitt barnanna glímdi lengi við kvíða en er nú loks að ná tökum á honum. „Hún var sannfærð um að ég myndi deyja, það var alveg sama hvað við foreldrarnir sögðum við hana. Hún trúði því ekki.“

Annað barnanna dró sig inn í skel. „Og fjarlægðist okkur um skamma hríð, við erum afskaplega náin og ég er stolt af honum því hann fann sína leið og stendur sig vel. Það er yndislegt að sjá hvað þessi lífsreynsla hefur þroskað hann mikið. Elsta dóttir mín tók á sig mikla ábyrgð, gekk inn í hlutverk sem ég skil hreinlega ekki hvernig hún gat höndlað. Og sá yngsti var mikið með mér í einangrun, því ég lagði áherslu á að kynnast honum vel.

Enginn ómissandi

Börnin mín hafa þurft að ganga í gegnum mikið og ég get sett mig í þeirra spor. Ég fæ sjálf sting í hjartað við það að hugsa um að að missa móður mína, og ég er 45 ára! Ég er heppin að hafa átt ástríka móður í heil 45 ár. Lífið er svo óútreiknanlegt og það er svo margt sem maður þarf að þakka fyrir,“ segir Sirrý.

„Ég var mjög ung þegar ég hugsaði með mér að ég vildi ekki lifa lífinu þannig að ég væri ómissandi. Ég held ég hafi verið sextán ára gömul þegar ég komst að þessari niðurstöðu. Ég hef oft sagt það við börnin mín, því það er satt. Það er enginn ómissandi og það eru forréttindi og ótrúleg gjöf að fá að lifa. Eitthvað sem maður á að þakka reglulega fyrir því maður á bara stundina vísa.“