Hæsti­réttur Banda­ríkjanna sneri í dag við dóma­for­dæmi Roe v Wade frá 1973 og endaði þar með tæp­lega fimm­tíu ára stjórnar­skrár­bundnum rétti Banda­ríkja­manna til þungunar­rofs. Búist er við því að um helmingur fylkja í Banda­ríkjunum muni banna þungunar­rof að hluta eða öllu leyti í kjöl­far á­lyktunarinnar.

Ríkis­sak­sóknari Mis­souri-ríkis, Eric Schmitt, til­kynnti að Mis­souri væri orðið fyrsta ríki Banda­ríkjanna til að banna al­farið þungunar­rof einungis nokkrum mínútum eftir að á­lyktun hæsta­réttar var kunn­gjörð.

„Þetta er náttúr­lega svo­lítið í sam­ræmi við það sem búist var við eftir að upp­kastið lak á sínum tíma í maí,“ segir Steinunn Rögn­valds­dóttir, kynja­fræðingur og annar höfundur bókarinnar Rof: Frá­sagnir kvenna af fóstur­eyðingum.

Af­hjúpi fram­tíðar­á­ætlanir í­halds­aflanna

Steinunn hefur fylgst grannt með þróun mála hvað varðar þungunar­rofs­lög­gjöfina vestan­hafs og segir hún á­lyktun hæsta­réttar ekki hafa komið sér á ó­vart en frum­drögum að á­liti hæsta­réttar­dómarans Samuel Alito var lekið til fjöl­miðla í byrjun maí.

„Það sem fólk er kannski núna að benda á er að þetta er svo langt frá því að vera eitt­hvað enda­tafl hvað varðar borgara­leg réttindi. Í á­litinu er í raun verið að gefa því undir fótinn að aðrir dómar sem séu næstir og séu þá undir sömu sök seldir varðandi það sem að þetta álit segir, að rétturinn til þungunar­rofs sé ekki stjórnar­skrár­varinn, þá gæti það líka átt við um dóma sem hafa fallið varðandi að­gengi að getnaðar­vörnum, hjóna­bönd sam­kyn­hneigðra og fleira,“ segir hún.

Í á­liti hæsta­réttar­dómarans Clarence Thomas er því meðal annars haldið fram að rétturinn ætti að endur­skoða önnur dóms­mál sem fallið hafa er varðar að­gengi að getnaðar­vörnum og sam­kynja hjóna­bönd.

„Það er margt fleira sem er í eld­línunni en bara þessi réttindi,“ segir Steinunn og bætir því við að þessi um­mæli af­hjúpi fram­tíðar­á­ætlanir í­halds­aflanna í Banda­ríkjunum.

Andstæðingar þungunarrofs fagna niðurstöðunni fyrir framan hæstarétt Bandaríkjanna.
Fréttablaðið/EPA

Mun ekki stoppa þarna

„Þetta mun ekkert stoppa þarna og þetta er í rauninni bara ein­stök að­gerð sem þýðir það að nú eru réttindi fólks til að fá þungunar­rof ekki stjórnar­skrár­varinn. Það er undir ríkjum komið að setja lög um það að og það þýðir í rauninni að fólk í mis­munandi ríkjum mun búa við mis­munandi að­gengi að þungunar­rofi,“ segir Steinunn.

Minnst 22 ríki Banda­ríkjanna hafa sett svo­kölluð „trig­ger“ lög í gildi sem banna nær al­farið þungunar­rof og munu virkjast nú þegar við­snúningurinn á Roe v Wade tekur gildi í al­ríkis­lögum. Þá eru fjögur fylki til við­bótar talin mjög lík­leg til að setja sam­bæri­leg lög.

„Þetta er næstum því helmingur ríkja í Banda­ríkjunum,“ segir Steinunn.

Stimpli fólk sem glæpa­menn og morðingja

Að sögn Steinunnar er ljóst er að lögin gegn þungunar­rofi munu kom einna verst niður á fá­tækum og jaðar­settum konum og ein­stak­lingum sem hafa ekki tök á því að ferðast til annarra ríkja eða landa sem heimila þungunar­rof.

„Yfir­stéttin og þau sem eru vel stæð fjár­hags­lega, þetta hefur engin á­hrif á þau. Þau sem eru ekki jaðar­sett á þann hátt að þau geti ekki ferðast út af ein­hverjum á­stæðum þetta mun ekki þannig séð hafa á­hrif á þau nema náttúr­lega með smán. Þetta náttúr­lega herðir á­taka­línurnar og dýpkar gjána á milli fólks.“

En þótt hinir efna­meiri í Banda­ríkjunum muni senni­lega alltaf geta fundið sér leiðir til að verða sér úti um þungar­rof segir Steinunn að það megi ekki líta fram hjá á­hrifunum sem hin sam­fé­lags­lega for­dæming hafi.

„Það má ekki líta fram hjá á­hrifunum sem það hefur þegar fólk fer að upp­lifa að það sé litið á það sem glæpa­fólk fyrir það að ætla að taka völdin yfir sínum eigin líkama. Það er ekkert auð­velt að upp­lifa þótt þú sért í að­stæðum til þess að geta fengið með­göngu­rof. Það er miklu meira heldur en við getum í­myndað okkur að sitja svo uppi með það að sam­fé­lagið þitt segir að þú sért glæpa­maður og jafn­vel að þú sért morðingi.“

Það er miklu meira heldur en við getum í­myndað okkur að sitja svo uppi með það að sam­fé­lagið þitt segir að þú sért glæpa­maður og jafn­vel að þú sért morðingi.

Margar hindranir í veginum

Úr­skurður hæsta­réttar Banda­ríkjanna hefur þegar mætt mikilli mót­stöðu. Fyrrum Banda­ríkja­for­setinn Barack Obama hefur for­dæmt niður­stöðuna sem og for­sætisráðherra Ís­lands, Katrín Jakobs­dóttir. Ljóst er að niður­stöðu réttarins verður ekki hnekkt en Steinunn segir þó að bar­áttunni fyrir rétti fólks til þungunar­rofs sé hvergi nærri lokið þótt úr­skurðurinn sé mikill þrándur í götu.

„Það eru of­boðs­lega margar hindranir í veginum varðandi það að reyna að mæta þessu á ein­hvern hátt. Til dæmis það að al­ríkis­stjórnin hún getur ekki lagt peninga í að reyna að hjálpa fólki að komast í þungunar­rof vegna the Hyde Am­end­ment sem bannar það sér­stak­lega,“ segir Steinunn.

Vísar hún þar með í laga­á­kvæði sem tók gildi 1980 er bannar notkun fjár­magns úr ríkis­sjóði til að greiða fyrir þungunar­rof nema til þess að bjarga lífi mann­eskjunnar sem er þunguð eða í til­fellum þar sem þungunin er af­leiðing sifja­spells eða nauðgunar.

„Það er ýmis­legt sem hindrar að það sé í raun og veru hægt að bregðast við á ein­hvern merkingar­bæran hátt,“ segir Steinunn en bendir á að vara­for­setinn Kamala Har­ris hafi farið strax í að skoða mögu­legar leiðir ríkis­stjórnarinnar til að sporna við þessu strax og á­liti hæsta­réttar var lekið.

Ó­trú­leg aftur­för

Að sögn Steinunnar er heil­mikil sókn í gangi hjá þeim í­halds­öflum Banda­ríkjanna sem freista þess að reyna að tak­marka borgara­leg réttindi fólks enn frekar. Þá segir hún marga eðli­lega spyrja sig hvað muni koma næst.

„Eins og að þessi ríki sem banna með­göngu­rof reyni að setja enn þá fleiri lög sem koma niður á þeim sem reyna að komast í með­göngu­rof í öðrum ríkjum. Banna til dæmis að fólk megi ferðast út úr ríki vegna þessa. Það eru alls konar pælingar um hvað verður reynt og ekkert er of fjar­stæðu­kennt í þessum efnum held ég, bara alls ekki. Við eigum eftir að sjá alls konar hryllings­sögur birtast, því miður,“ segir Steinunn.

Hún segir fátt annað í stöðunni fyrir fólk sem vill standa uppi gegn þessum lögum, hvort sem um ræðir Banda­ríkja­menn eða Ís­lendinga, en að halda þeim skoðunum hátt á lofti að þungunar­rof sé nauð­syn­leg heil­brigðis­þjónusta.

„Þetta er um­ræða sem þarf alltaf að vera á varð­bergi varðandi. Staða vesa­lings fólksins sem hefur núna upp­lifað það að réttindi þeirra til að ráða yfir eigin líkama hafa verið þurrkuð út í þeim til­fellum þegar þungun á sér stað. Þetta er ó­trú­leg aftur­för og mun fyrst og fremst leiða til eymdar og sárs­auka.“

Staða vesa­lings fólksins sem hefur núna upp­lifað það að réttindi þeirra til að ráða yfir eigin líkama hafa verið þurrkuð út í þeim til­fellum þegar þungun á sér stað. Þetta er ó­trú­leg aftur­för og mun fyrst og fremst leiða til eymdar og sárs­auka.