Hæstiréttur Bandaríkjanna sneri í dag við dómafordæmi Roe v Wade frá 1973 og endaði þar með tæplega fimmtíu ára stjórnarskrárbundnum rétti Bandaríkjamanna til þungunarrofs. Búist er við því að um helmingur fylkja í Bandaríkjunum muni banna þungunarrof að hluta eða öllu leyti í kjölfar ályktunarinnar.
Ríkissaksóknari Missouri-ríkis, Eric Schmitt, tilkynnti að Missouri væri orðið fyrsta ríki Bandaríkjanna til að banna alfarið þungunarrof einungis nokkrum mínútum eftir að ályktun hæstaréttar var kunngjörð.
„Þetta er náttúrlega svolítið í samræmi við það sem búist var við eftir að uppkastið lak á sínum tíma í maí,“ segir Steinunn Rögnvaldsdóttir, kynjafræðingur og annar höfundur bókarinnar Rof: Frásagnir kvenna af fóstureyðingum.
🚨 BREAKING 🚨 Following the SCOTUS ruling overturning Roe v. Wade, Missouri has just become the first in the country to effectively end abortion with our AG opinion signed moments ago. This is a monumental day for the sanctity of life. pic.twitter.com/Jphy72R4rq
— Attorney General Eric Schmitt (@AGEricSchmitt) June 24, 2022
Afhjúpi framtíðaráætlanir íhaldsaflanna
Steinunn hefur fylgst grannt með þróun mála hvað varðar þungunarrofslöggjöfina vestanhafs og segir hún ályktun hæstaréttar ekki hafa komið sér á óvart en frumdrögum að áliti hæstaréttardómarans Samuel Alito var lekið til fjölmiðla í byrjun maí.
„Það sem fólk er kannski núna að benda á er að þetta er svo langt frá því að vera eitthvað endatafl hvað varðar borgaraleg réttindi. Í álitinu er í raun verið að gefa því undir fótinn að aðrir dómar sem séu næstir og séu þá undir sömu sök seldir varðandi það sem að þetta álit segir, að rétturinn til þungunarrofs sé ekki stjórnarskrárvarinn, þá gæti það líka átt við um dóma sem hafa fallið varðandi aðgengi að getnaðarvörnum, hjónabönd samkynhneigðra og fleira,“ segir hún.
Í áliti hæstaréttardómarans Clarence Thomas er því meðal annars haldið fram að rétturinn ætti að endurskoða önnur dómsmál sem fallið hafa er varðar aðgengi að getnaðarvörnum og samkynja hjónabönd.
„Það er margt fleira sem er í eldlínunni en bara þessi réttindi,“ segir Steinunn og bætir því við að þessi ummæli afhjúpi framtíðaráætlanir íhaldsaflanna í Bandaríkjunum.

Mun ekki stoppa þarna
„Þetta mun ekkert stoppa þarna og þetta er í rauninni bara einstök aðgerð sem þýðir það að nú eru réttindi fólks til að fá þungunarrof ekki stjórnarskrárvarinn. Það er undir ríkjum komið að setja lög um það að og það þýðir í rauninni að fólk í mismunandi ríkjum mun búa við mismunandi aðgengi að þungunarrofi,“ segir Steinunn.
Minnst 22 ríki Bandaríkjanna hafa sett svokölluð „trigger“ lög í gildi sem banna nær alfarið þungunarrof og munu virkjast nú þegar viðsnúningurinn á Roe v Wade tekur gildi í alríkislögum. Þá eru fjögur fylki til viðbótar talin mjög líkleg til að setja sambærileg lög.
„Þetta er næstum því helmingur ríkja í Bandaríkjunum,“ segir Steinunn.
Stimpli fólk sem glæpamenn og morðingja
Að sögn Steinunnar er ljóst er að lögin gegn þungunarrofi munu kom einna verst niður á fátækum og jaðarsettum konum og einstaklingum sem hafa ekki tök á því að ferðast til annarra ríkja eða landa sem heimila þungunarrof.
„Yfirstéttin og þau sem eru vel stæð fjárhagslega, þetta hefur engin áhrif á þau. Þau sem eru ekki jaðarsett á þann hátt að þau geti ekki ferðast út af einhverjum ástæðum þetta mun ekki þannig séð hafa áhrif á þau nema náttúrlega með smán. Þetta náttúrlega herðir átakalínurnar og dýpkar gjána á milli fólks.“
En þótt hinir efnameiri í Bandaríkjunum muni sennilega alltaf geta fundið sér leiðir til að verða sér úti um þungarrof segir Steinunn að það megi ekki líta fram hjá áhrifunum sem hin samfélagslega fordæming hafi.
„Það má ekki líta fram hjá áhrifunum sem það hefur þegar fólk fer að upplifa að það sé litið á það sem glæpafólk fyrir það að ætla að taka völdin yfir sínum eigin líkama. Það er ekkert auðvelt að upplifa þótt þú sért í aðstæðum til þess að geta fengið meðgöngurof. Það er miklu meira heldur en við getum ímyndað okkur að sitja svo uppi með það að samfélagið þitt segir að þú sért glæpamaður og jafnvel að þú sért morðingi.“
Það er miklu meira heldur en við getum ímyndað okkur að sitja svo uppi með það að samfélagið þitt segir að þú sért glæpamaður og jafnvel að þú sért morðingi.
Margar hindranir í veginum
Úrskurður hæstaréttar Bandaríkjanna hefur þegar mætt mikilli mótstöðu. Fyrrum Bandaríkjaforsetinn Barack Obama hefur fordæmt niðurstöðuna sem og forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir. Ljóst er að niðurstöðu réttarins verður ekki hnekkt en Steinunn segir þó að baráttunni fyrir rétti fólks til þungunarrofs sé hvergi nærri lokið þótt úrskurðurinn sé mikill þrándur í götu.
„Það eru ofboðslega margar hindranir í veginum varðandi það að reyna að mæta þessu á einhvern hátt. Til dæmis það að alríkisstjórnin hún getur ekki lagt peninga í að reyna að hjálpa fólki að komast í þungunarrof vegna the Hyde Amendment sem bannar það sérstaklega,“ segir Steinunn.
Vísar hún þar með í lagaákvæði sem tók gildi 1980 er bannar notkun fjármagns úr ríkissjóði til að greiða fyrir þungunarrof nema til þess að bjarga lífi manneskjunnar sem er þunguð eða í tilfellum þar sem þungunin er afleiðing sifjaspells eða nauðgunar.
„Það er ýmislegt sem hindrar að það sé í raun og veru hægt að bregðast við á einhvern merkingarbæran hátt,“ segir Steinunn en bendir á að varaforsetinn Kamala Harris hafi farið strax í að skoða mögulegar leiðir ríkisstjórnarinnar til að sporna við þessu strax og áliti hæstaréttar var lekið.
Today, the Supreme Court not only reversed nearly 50 years of precedent, it relegated the most intensely personal decision someone can make to the whims of politicians and ideologues—attacking the essential freedoms of millions of Americans.
— Barack Obama (@BarackObama) June 24, 2022
Ótrúleg afturför
Að sögn Steinunnar er heilmikil sókn í gangi hjá þeim íhaldsöflum Bandaríkjanna sem freista þess að reyna að takmarka borgaraleg réttindi fólks enn frekar. Þá segir hún marga eðlilega spyrja sig hvað muni koma næst.
„Eins og að þessi ríki sem banna meðgöngurof reyni að setja enn þá fleiri lög sem koma niður á þeim sem reyna að komast í meðgöngurof í öðrum ríkjum. Banna til dæmis að fólk megi ferðast út úr ríki vegna þessa. Það eru alls konar pælingar um hvað verður reynt og ekkert er of fjarstæðukennt í þessum efnum held ég, bara alls ekki. Við eigum eftir að sjá alls konar hryllingssögur birtast, því miður,“ segir Steinunn.
Hún segir fátt annað í stöðunni fyrir fólk sem vill standa uppi gegn þessum lögum, hvort sem um ræðir Bandaríkjamenn eða Íslendinga, en að halda þeim skoðunum hátt á lofti að þungunarrof sé nauðsynleg heilbrigðisþjónusta.
„Þetta er umræða sem þarf alltaf að vera á varðbergi varðandi. Staða vesalings fólksins sem hefur núna upplifað það að réttindi þeirra til að ráða yfir eigin líkama hafa verið þurrkuð út í þeim tilfellum þegar þungun á sér stað. Þetta er ótrúleg afturför og mun fyrst og fremst leiða til eymdar og sársauka.“
Staða vesalings fólksins sem hefur núna upplifað það að réttindi þeirra til að ráða yfir eigin líkama hafa verið þurrkuð út í þeim tilfellum þegar þungun á sér stað. Þetta er ótrúleg afturför og mun fyrst og fremst leiða til eymdar og sársauka.