Um 1800 félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg fara nú í ótímabundið verkfall á miðnætti en tímabundin verkföll hjá félagsmönnum hafa verið síðustu tvær vikur.

Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til nýs samningafundar milli Eflingar og Reykjavíkurborgar eftir að fundinum sem átti að eiga sér stað síðasta þriðjudag var frestað þar sem deiluaðilar voru ekki nægilega vel undirbúin fyrir frekari samningaviðræður.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrr í vikunni að hún væri ekki bjartsýn á að samningar myndu nást og sakaði Reykjavíkurborg um tímasóun. Þá sagði hún félagsmenn þó vera í áframhaldandi baráttuhug og að verkfallsaðgerðir hefðu gengið vel.

Þeir sem sinna viðkvæmustu þjónustunni fá undanþágu

Þjónusta mun skerðast töluvert vegna verkfallsins og ber þar helst að nefna matarþjónustu, sorphirðu, leikskóla og velferðarþjónustu en starfsfólk í viðkvæmustu þjónustunni getur óskað eftir undanþágu.

Að því er kemur fram á vef Reykjavíkurborgar hefur velferðarsvið fengið undanþágu fyrir starfsfólk Eflingar sem sinnir umönnun fatlaðs fólks, aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum, barna og fólks sem þarf á neyðarþjónustu að halda í gistiskýlum.

Efling hefur boðað til samstöðu- og baráttufundar í Iðnó klukkan 13 á morgun og er fólk hvatt til að mæta.