Ekki er tímabært að grípa til aðgerða hér á landi til að hindra að kórónaveiran berist hingað með innfluttum matvælum, að mati Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.

Þetta kom fram í máli hans í fyrirspurnatíma á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.

Yfir­völd í kín­versku borginni Shenz­hen fullyrða að yfir­borðs­sýni sem tekið var af frosnum kjúk­linga­vængjum hafi reynst já­kvætt fyrir kóróna­veirunni en vængirnir voru inn­fluttir frá Brasilíu.

Skoða hvort veiran hafi borist með frakt

Eru heil­brigðis­yfir­völd í borginni nú sögð fylgjast vel með inn­fluttum mat en kínverskir miðlar greindu frá því á dögunum að veiran hafi fundist á umbúðum utan um frosnar rækjur sem innfluttar voru frá Ekvador.

Þá kanna stjórnvöld á Nýja-Sjálandi hvort veiran hafi borist þangað til lands með fraktflutningum.

Fræðilegur möguleiki

Karl segir nauðsynlegt að rannsaka slík mál nánar áður en gripið verði til sérstakra aðgerða.

„Fræðilega séð [getur veiran] lifað í frosti í langan tíma og þetta er þá bara spurning um hvernig matvælin eru unnin og hvort einhver veikur og mjög smitandi hafi verið að handfjatla matvælin,“ sagði Karl á upplýsingafundinum.

„Þá er þetta fræðilegur möguleiki, en hversu líklegt það er vitum við ekki enn þá. Við bíðum bara spennt eftir að heyra meira af þessum rannsóknum sem eru farnar í gang.“