Ekki stendur til að kyrrsetja Boeing 737 Max farþegaþotur Icelandair eða grípa til sérstakra aðgerða. Tvær slíkar þotur hafa farist stuttu eftir flugtak, nú síðast í Eþíópíu í morgun. Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair segir öryggið ætíð vera í fyrirrúmi hjá flugfélaginu.

Tvö slys með skömmu millibili

Eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun fórst farþegaþota Ethiopian Airlines rétt fyrir utan höfuðborg Eþíópíu, Addis Ababa, sex mínútum eftir flugtak. Allir um borð, 157 manns, fórust í flugsslysinu. Þotan var af gerðinni Boeing 737 Max, og var hún splunkuný í flugflota Ethiopian Airlines — aðeins fjögurra mánaða gömul.

Í október síðastliðinn fórst þota af sömu gerð yfir Jakarta í Indónesíu, aðeins tólf mínútum eftir flugtak. Við fyrstu sýn virðist atburðarásin í þessum tveim slysum nokkuð sambærileg, en Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Icelandair, sem gerir út þrjár Boeing 737 Max þotur, segir að það sé algjörlega ótímabært að tengja slysin tvö saman. „Það er ekkert vitað um hvað gerðist þarna í morgun og í raun ekkert sem gerir það að verkum að maður fari að hugsa til einhverra aðgerða,“ segir Jens í samtali við Fréttablaðið. 

Hann segir að rúmlega 300 slíkar vélar séu í umferð á hverjum degi um allan heim, og að hingað til sé ekkert sem gefur tilefni til þess að ætla að slysið í morgun hafi orðið vegna vélarbilunar. „Eins og alltaf er samt öryggið í fyrirrúmi hjá okkur. Við grandskoðum vélarnar fyrir hvert flug og tryggjum að öryggið njóti vafans,“ segir Jens.

Eru í samskiptum við Boeing

Þó séu fulltrúar Icelandair í nánum samskiptum við framleiðanda vélanna, Boeing, sérstaklega í kringum atburði eins og flugslysið í morgun. „Boeing upplýsir okkur um allt sem kemur fram þegar þetta er rannsakað. Við erum í samskiptum við þau og mögulega koma til einhverjar aðgerðir eftir því sem rannsókninni vindur fram, ef tilefni er til þess,“ segir Jens. „Við erum að bíða eftir því að fólk átti sig og við tökum stöðuna þegar eitthvað kemur í ljós um ástæður slyssins, en enn sem komið er engin ástæða til að óttast þessar vélar.“