Í lok heims­styrj­aldarinnar fyrri varð frægt hug­takið „ó­þekkti her­maðurinn“ (The Unknown Soldi­er), en með því vildu ríkis­stjórnir vestur­veldanna minna á hlut­deild ó­breyttra her­manna í hildar­leik stríðsins. Þannig létu ríkis­stjórnir Bret­lands og Frakk­lands jarð­setja ó­þekktan her­mann í dóm­kirkjunni West­min­ster Abbey í Lundúnum og undir Sigur­boganum í París. Upp af Ó­feigs- og Ey­vindar­firði á Ströndum eru hundruð fossa, flestir í þremur blá­tærum berg­vatns­ám: Hva­lá, Rjúkandi og Ey­vindar­fjarðar­á. Sumir eru í hópi stór­brotnustu fossa landsins líkt og Drynjandi, Rjúkandi og Ey­vindar­fjarðar­ár­foss. Síðan eru tugir annarra til­komu­mikilla fossa sem eiga það sam­eigin­legt að bera ekki nafn. Það sýnir hversu ó­snortið og fá­farið þetta svæði er. Þar hafa fá­einir bændur smalað heiðar á haustin, sem eru oft af­girtar gljúfrum og ám.

Í all­mörg ár hefur staðið til að virkja bæði Hva­lá og Ey­vindar­fjarðar­á. Þá hefðu þessir merku fossar minnkað mikið, eða þornað upp, sem hefði gjör­breytt á­sýnd þessarar ó­snortnu náttúru­para­dísar. Til allrar hamingju var ný­lega á­kveðið að slá fram­kvæmdum við Hvalár­virkjun á frest – vonandi þó til fram­búðar. Fossarnir steypast fram af hörðum berg­lögum og í ná­vígi við þá nötrar jörðin undir fótum manns. Við ströndina er mergð sjó­fugla og á góðum degi sjást þar selir og jafn­vel hvalir. Sér­staða svæðisins felst í því að þarna eru engir vegir; en titillinn á frá­bærri bók rit­höfundarins Hrafns Jökuls­sonar um svæðið er ein­mitt: Þar sem vegurinn endar. Þar er greint frá ein­stakri sögu Ár­nes­hrepps en einnig má þar finna lýsingar á skemmti­legum karakterum og stöðum í einum af­skekktasta og víð­feðmasta hreppi Ís­lands. Það er ein­mitt sagan í bland við lítt snortna náttúru, sem gerir ferða­lag um Strandir svo eftir­minni­legt.

Fossarnir nafn­lausu eru eins og punkturinn yfir i-ið á því ferða­lagi og þá er auð­veldara að nálgast en margir halda. Frá Hólma­vík er 100 km akstur í Norður­fjörð, þar sem gista má á hóteli eða í skála Ferða­fé­lags Ís­lands sem einnig býður upp á frá­bært tjald­stæði. Skammt undan er Kross­nes­laug bók­staf­lega í flæðar­málinu og býður upp á sjóð­heitt út­sýni að Reykja­ne­shyrnu og fjall­garðinum suður af Tré­kyllis­vík. Frá Norður­firði er tæp­lega klukku­stundar akstur á jeppa að Hvalár­fossum. Þaðan er til­valið að leggja í göngu að ó­þekktu her­mönnunum um leið og Drynjandi, Rjúkandi og Ey­vindar­ár­foss eru skoðaðir

Fossanna á Ströndum má njóta í návígi og þá hristist jörðin undir manni. Kálfatindar í baksýn.
Mynd/TG
Fossarnir eru af öllum stærðum og gerðum. Þessi ónefndi foss í Rjúkandi skartar vegg úr stuðlabergi.
Mynd/ÓMB