„Hver einasta atlaga sem þau heyja að Báru er annar smánarblettur á stjórnmálaferil þeirra,“ segir Ragnheiður Erla Björnsdóttir, tónskáld og rithöfundur, í samtali við Fréttablaðið, en hún er óþekkta konan sem hitti Báru á Klausturbar.

Smágerði hluturinn skopparakringla

Í bréfi lögmanns þingmanns Miðflokksins til Persónuverndar segir að kona hafi komið inn á barinn og átt stutt erindi við Báru. Hún hafi afhent henni ljósan hlut og tekið við einhverjum smágerðum hlut sem Bára hafi rétt henni. Ragnheiður hafnar því og segist ekki hafa rétt Báru neitt.

„Ég var með litla skopparakringlu. Þeir segja að það sé vafasamt. Ég myndi ekki segja að skopparakringla væri vafasöm.“

Einnig kemur fram að Ragnheiður hafi gengið fram hjá Klaustri með ljósan mun í hendi „mögulega möppu, tölvu eða spjaldtölvu.“ Ragnheiður segir umræddan mun vera fartölva hennar eða ljóðabók.

„Það getur vel verið þetta hafi verið fartölva mín eða ljóðabókin mín. Ég rétti henni ekki neitt. Ég knúsaði hana og fór út eftir að hún sagði mér að hún væri upptekin,“ segir Ragnheiður Erla sem var nýútskrifuð úr meistaranámi í ritlist þar sem hún vann að ljóðabókinni.

Skopparakringlan „vafasama“.

Frá Rauða Skáldahúsinu að Skólabrú

Ragnheiður var á leiðinni af æfingu hjá Rauða Skáldahúsinu. Rauða skálda­húsið er blanda af ljóðakvöldi, leik­húsi og kaba­rett, þar sem ljóðskáld selja gest­um einka­lestra í ná­inni um­gjörð. Stór hluti af Rauða Skáldahúsinu er spuni og eru því listamenn ekki skyldugir til að mæta á allar æfingar. Bára hefur komið þar fram undir sviðsnafninu Snæugla Norn og var sjálf á leiðinni á æfingu þegar hún ákvað að staldra við á Klaustri það umtalaða kvöld.

Ragnheiður var nýkominn frá Hollandi þar sem hún var að frumflytja verk á listahátíð, þegar hún ákvað að mæta á æfingu til að heilsa upp á vini sína. Eftir æfingu hafi hún lagt leið sína að Skólabrú, fram hjá Klausturbar.

„Ég hef betri hluti að gera en að hugsa um rússíbanalíf Sigmundar Davíðs.“

„Ég var að gista í íbúð hjá vini mínum sem er við hliðina á Skólabrú. Ég sá Báru inni á Klaustri og ég sá Sigmund Davíð og mér fannst það skondin blanda af fólki,“ segir Ragnheiður og bætir við að hún hafi ákveðið að kíkja inn og heilsa upp á Báru.

„Ég hafði einmitt velt fyrir mér hvort Bára ætlaði að mæta á æfingu. Ég hef þekkt hana síðan ég var 14 ára og saknaði hennar eftir dvöl mína erlendis. Eftir æfinguna er ég að labba aftur heim, þá sé ég Sigmund Davíð inn á Klaustri með hinum þingmönnunum.“

Hún segir að henni hafi brugðið örlítið að sjá svo marga kjörna fulltrúa drekka áfengi við áberandi glugga.

„Maður sér þetta ekki í öðrum löndum. Það var fyllerísbragur yfir þeim, hvernig þau sátu og báru sig,“ segir Ragnheiður og lýsir því að hún hafi rétt kíkt inn á Klaustur, heilsað Báru og farið svo út þegar Bára sagðist vera upptekin.

Ragnheiður les ljóð í Rauða Skáldahúsinu í Iðnó.
Rauða skáldahúsið/Hrafna Jóna Ágústsdóttir

Reyna að afvegaleiða athyglina

Ragnheiður segir nýjustu ásakanir Miðflokksmanna vera leið til að draga athygli frá þeirra eigin hegðun.

„Þau eru að reyna að afvegaleiða athyglina af því sem skiptir máli, sem er hversu óviðeigandi og óafsakandi hegðun þeirra var í garð þeirra sem þau töluðu um.“ Hún segir að þingfólkið ætti frekar að einblína á að bæta upp fyrir hegðun sína.

„Hver einasta atlaga sem þau heyja að Báru er annar smánarblettur á stjórnmálaferil þeirra. Þegar þau ráðast á Báru þá eru þau að ráðast á þjóðina,“ segir Ragnheiður.

Aðspurð segir Ragnheiður að hún sé ekki að reyna knésetja Miðflokkinn. „Ég hef betri hluti að gera en að hugsa um rússíbanalíf Sigmundar Davíðs.“

Hefur áhyggjur af heilsu Báru

Ragnheiður segist hafa áhyggjur af því hvernig framkoma þingmannanna hafi áhrif á Báru.

„Bára er öryrki og þau eru að níðast á henni. Þau eru að níðast á manneskju sem þarf á orku sinni að halda til að hugsa um heilsu sína, þegar þau ættu að vera á þingi og hugsa um hag fólksins,“ segir Ragnheiður.

„Það vita allir sem þekkja einhvern sem er að kljást við sjúkdóm, að það er ekki hægt að standa í þessu í langan tíma. Framkoma þeirra er tilgangslaus orkusuga.“

Stödd í Sri Lanka

Ragn­heiður er stödd á Srí Lanka þar sem fjöldi sprengju­á­rása hafa átt sér stað. Í kringum 200 eru látnir og hundruð eru særðir. Hún hefur dvalið þar undan­farna tvo mánuði en hún kveðst hafa orðið ást­fangin af landi og þjóð þegar hún ferðaðist þangað síðasta haust. Fréttablaðið tók viðtal við hana fyrir nokkru um ástandið í landinu.

Þá fór hún einnig til Austurríkis í sömu ferð síðasta haust, þar sem hún fékk skopparakringluna að gjöf. Þaðan fór hún til Hollands þar sem hún frumflutti verk sitt. Hún hafi viljað fara aftur til Sri Lanka eftir góða ferð.

„Ég er að kenna ensku og tón­list í skóla í Kekirawa og bý hjá fjöl­skyldu þar,“ segir hún.

Fréttin hefur verið uppfærð.