Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sat fyrir svörum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag en fjórir þingmenn beindu spurningum sínum að ráðherranum og sneru flestar spurningarnar að Landspítala.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði meðal annars heilbrigðisráðherra út í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í heimsfaraldri kórónaveirunnar og minntist þar sérstaklega á geðheilbrigðismál en hún vísaði til þess að í fjárlagafrumvarpinu væri ekki fjármagn eyrnamerkt þegar kemur að lögum um samtalsmeðferðir.

Flokkarnir á Alþingi hefðu verið sammála því að fella þyrfti klíníska samtalsmeðferðir undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Þorgerður spurði hversu langt vinna við það væri komin en ljóst væri að heilsugæslurnar anni ekki því fólki sem væri á biðlistum. „Það er verið að kalla eftir úrræðum og þá verðum við einfaldlega að kalla allar hendur á dekk til að svo verði og það þýðir ekki að útiloka sjálfstætt starfandi sálfræðinga eða annað heilbrigðisfólk til að taka á þessu.“

Sammála um mikilvægi þjónustunnar

Svandís sagði það ekki rétt að það væru engir samningar í gildi við sjálfstætt starfandi aðila en var sammála því að það þurfi margar hendur á dekk og sagði að fjármagn til geðheilbrigðisþjónustu myndi liggja fyrir í næsta mánuði. Þá var hún ósátt við að Þorgerður hafi gert lítið úr þjónustu heilsugæslunnar en um 2600 manns hafi fengið þjónustu frá geðheilsuteymum heilsugæslunnar.

Þorgerður Katrín spurði út í geðheilbrigðismál.

Þorgerður aftur á móti þvertók fyrir það að hún væri að gera lítið úr heilsugæslunni en að staðreyndin væri sú að það væri fólk á biðlistum eftir þjónustu. Hún sagði það liggja fyrir að það þurfi að huga að lýðheilsu landans og spurði Svandísi hvað hún ætlaði að gera til að stuðla því að þörfum fólks sé mætt.

„Einhvern tíma var sagt við mig að það væri óþarfi að berja á dyr sem væru opnar. Það er dálítið það sem mig langar til að segja við hæstvirtan þingmann,“ sagði Svandís og bætti við að þær væru sammála um mikilvægi þjónustunnar og aðgengi að henni.

Átakanlegt að sjúklingar á Landakoti hafi látist

Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata, spurði Svandísi út í málefni Landakots og spurði hvort hún hafi ekki verið meðvituð um að húsakostur og undirmönnun Landakots væri langt fyrir neðan þær öryggiskröfur sem eru gerðar til heilbrigðisstofnana. Að lokum spurði hún hvort Svandís líti svo á að hún sem ráðherra beri endanlega ábyrgð á gæðum og frammistofa stofnunarinnar.

Svandís svaraði með því að innri skoðun spítalans væri lokið en embætti landlæknis væri enn að rannsaka málið. Þá sagði hún að endurbætur hafi verið komnar í farvatnið þegar faraldurinn kom upp í vor. Hún sagði það hræðilega átakanlegt að sjúklingar á Landakoti hafi látist en það sýni að veiran geti komið upp hvar sem er.

„Blaut tuska í andlitið“

Sara spurði þá út í hallarekstur Landspítala, sem hún sagði nema 4,3 milljörðum króna. „Slíkur hallarekstur kemur eins og blaut tuska í andlitið á stjórnendum spítalans sem og þjóðinni allri sem þurft hefur að þola ýmislegt síðustu níu mánuði vegna ógnvekjandi heimsfaraldurs COVID-19 og hafa síðustu mánuði er sýnt fram á gríðarlegt mikilvægi heilbrigðiskerfisins fyrir þjóðina,“ sagði Sara.

Þá sagði hún það sæta undrun að aðhaldskrafa sé gerð á Landspítala og spurði hvers vegna Svandís vildi skerða þjónustugetu sjúkrahússins. Svandís sagðist ekki vilja skerða þjónustugetu sjúkrahússins en það væri ljóst að húsnæðiskostnaður íslenskrar heilbrigðisþjónustu væri víða barn síns tíma.

„Af því að hæstvirtur þingmaður spyr um blauta tusku er það svo, því miður, að Landspítalinn veit og vissi af þessum halla og vissi af því hvernig hann liti út,“ sagði Svandís og tók fram að aðhaldskrafan væri ekki 4,3 milljarðar heldur 0,5 prósent, líkt og fyrri ár.

Skerðing á þjónustu við sjúklinga komi ekki til greina

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Svandísi út í skerta þjónustu við sjúklinga vegna heimsfaraldursins en hann sagði rekstur spítalans hafa verið undirfjármagnaður um árabil. Hann sagði stjórnendur spítalans nú sjá fram á erfiðar ákvarðanir þar sem fjármunum rekstursins væri of naumt skammtað.

„Er það forsvaranlegt að Landspítalinn sé knúinn til að skerða þjónustu við sjúklinga á tímum heimsfaraldurs og er virkilega ekki hægt að falla frá kröfum aðhaldskröfu í fjárlögum og þeirri kröfu að Landspítalinn þurfi að vinna uppsafnaðan halla á næstu þremur árum og tryggja þannig spítalanum viðunandi rekstrarskilyrði á þessum skrýtnu tímum?“ spurði Logi.

Svandís svaraði með því að til stæði að funda um bréf Landspítala á næstu dögum þar sem lagðar voru fram tilteknar aðgerðir til að koma til móts við hallarekstur en hún sagði skerðingu á þjónustu við sjúklinga ekki koma til álita.

Aðstæðurnar gætu myndað freistnivanda

Því næst spurði Logi hvort það kæmi til greina að ráðast gegn undirmönnun á spítalanum í ljósi aðstæðna en velti fyrir sér hvort aðstæðurnar mynduðu ákveðinn freistnivanda fyrir hægri öflin á þingi og í ríkisstjórninni til að ná fram einkarekstri og einkavæðingu í kerfinu.

Svandís tók undir sjónarmið Loga um að það væri jákvætt að ráðast gegn undirmönnun en sagðist ekki telja að um freistnivanda væri að ræða, frekar pólitískur áherslumunur. „Það er ekki freistnivandi sérstaklega fólgin í pólitískum áherslumun en við erum öll meðvituð um þennan pólitíska áherslumun sem hér erum á Alþingi,“ sagði Svandís.

Logi Einarsson spurði út í mögulegan freistnivanda og undirmönnun.
Fréttablaðið/Ernir

Sóttvarnaaðgerðir skerði sem minnst skólastarf

Að lokum var Svandís spurð út í sóttvarnaaðgerðir innan framhaldsskóla en Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði þar út í áherslur stjórnvalda um að halda skólum opnum. Fáir skólar hafi nú getað hafið staðnám á ný, nema að litlu leyti, og spurði Vilhjálmur af hverju það gengi svona hægt að koma nemendum í framhaldsskólana.

„Af hverju gengur svona hægt að koma framhaldsskólanemendum í skólanna sem er gríðarlega mikilvægt og hvar og þurfi ekki að vera meiri, skýrari reglur og meira svigrúm í reglunum svo að skólarnir geti hérna búi allir við sama borð um að hleypa nemendunum aftur í skólum?

Svandís svaraði með því að flestir séu líklega sammála um að það sé gríðarlega mikilvægt að viðhalda samfelli í menntun og skólastarfi og að Íslendingar hafi mögulega gengið lengra en nágrannaþjóðirnar. „Við höfum freistað þess í öllum okkar skrefum að gæta að því að sóttvarna aðgerðir skerði sem minnst skólastarf og það er okkar sameiginlega markmið,“ sagði Svandís.