Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega drög að frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um hagræðingu í sláturiðnaði. Með frumvarpinu verður afurðastöðvum í sláturiðnaði heimilað að stofna og starfrækja félög um flutning gripa, slátrun, birgðahald og frumvinnslu, til að ná fram hagræðingu.

Samkvæmt ráðuneytinu er frumvarpið lagt fram til samræmis við tillögur spretthóps vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu.

Í umsögn Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, kemur fram að félagið leggist eindregið gegn frumvarpinu. Það telji málið til óþurftar, skaða íslenskt atvinnulíf og neytendur og skapa stórvarasamt fordæmi.

Bendir hann á að margir sláturleyfishafar séu í prýðilegum rekstri. Svo sem Kaupfélag Skagfirðinga sem hagnast hefur um 18,3 milljarða króna á undanförnum 4 árum, þar af 5,4 milljarða í fyrra. Þá var hagnaður Stjörnugríss 325 milljónir króna árið 2021, sem sé hækkun um 68 prósent frá árinu áður, og hagnaður Sláturfélags Suðurlands var 232 milljónir króna í fyrra.

Segir í umsögninni að algjörlega ótækt sé að sérhagsmunahópar geti með þessum hætti pantað undanþágur frá samkeppnislögum frá stjórnvöldum, telji þeir rekstur sumra fyrirtækja ekki ganga nógu vel. „Slíkt skapar afar varasamt fordæmi og ryður að mati félagsins brautina fyrir heldur aumkunarverðan pilsfaldakapítalisma,“ segir Ólafur í bréfinu.

Víkur hann meðal annars að tollkvóta Evrópusambandsins, sem innlendir framleiðendur hafa keypt upp að stórum hluta. „Því er ósvarað hvaða áhrif lögfesting undanþágunnar, sem lögð er til í frumvarpinu, hefði á möguleika innlendra afurðastöðva á kjötmarkaði á að sölsa jafnvel undir sig allan tollkvótann fyrir kjötvörur og hindra þannig alveg samkeppni frá innflutningi.“