Það má telja mikla mildi að hin tæp­lega árs gamla Bor­der Colli­e tík Þota, sem býr á bænum Hall­kels­staða­hlíð í Borgar­byggð, sé á lífi. Sig­rún Ólafs­dóttir, tamninga­maður og eig­andi Þotu, birtir sögu þar sem hún fer yfir ó­trú­legar raunir tíkurinnar í vikunni sem leið.

Síðast­liðinn laugar­dag brá nefni­lega svo við að Þota skilaði sér ekki heim eftir um klukku­stundar úti­veru á bænum. Hófst þá leit sem stóð fram á myrkur og voru helstu staðir í kring sem til greina komu skoðaðir. Sig­rún setti þá út á­kall á sam­fé­lags­miðlum og var farið í að leita að spor­hundi sem gæti mögu­lega leyst gátuna hvað varð um Þotu. 

„Næstu daga var svo leitað og leitað en ekkert kom í ljós sem gaf vís­bendingar um hvað af Þotu hefði orðið. Mummi [sonur Sig­rúnar] flaug drónanum hér fram og til baka þegar veður leyfði, brunað var á fjór­hjólinu til fjalla, farið í göngu­túra með hina hundana til að freista þess að láta þá finna Þotu,“ skrifar Sig­rún í færslu sinni. 

Ýmsar til­gátur voru settar fram í þeim efnum. Þota hefði getað farið í stóðið skammt frá bænum og fengið þar höfuð­högg, eða þá hvort að ís hafi brotnað undan henni á Hlíðar­vatni skammt frá. 

„Meira að segja var farið að bera uppá eldri hundana sem stundum eru leiðir á hvolpa­látunum að þeir hefðu vís­vitandi komið henni fyrir kattar­nef. Reið­túrarnir voru hljóðir því alltaf var verið að hlusta eftir gelti.“ 

Þegar öll von virtist úti, eftir um viku­leit, skilaði Þota sér heim að húsi, „svöng, mjós­legin og illa lyktandi“. 

Þá hafi Mummi, sonur Sig­rúnar, á­kveðið að fljúga af stað dróna til að elta uppi spor Þotu litlu, en það reyndist auð­velt í ný­föllnum snjónum. Rakti Mummi förin inn með Hlíðar­vatni á stað sem nefndur er Horn, um 600 metrum frá bænum. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að snjó­hengja hafði fallið ofan af kar­töflu­garði sem er í um 15 til 20 metra hæð ofan við vatnið.

Mummi og Maron, vinur fjöl­skyldunnar, hafi á­kveðið að skoða hengjuna betur og fundið holu inn í skaflinn þar sem hengjan hafði fallið. Nær öruggt sé að Þota hafi komist úr holunni sem var lítil, köld og illa lyktandi. Um­merki hafi þar sést um að Þota hafi grafið og krafsað sig upp langan veg úr holunni. Þannig séu góðar líkur á að Þota hafi þraukað þar í um sex daga. 

„Það er ó­hætt að segja að hún Þota litla hefur heldur betur átt við­burða­ríka viku,“ skrifar Sig­rún og bætir við að nú sé Þota litla komin með gælu­nafnið Snjó­þota.

Sögu Þotu litlu og fleiri myndir af snjóhengjunni og Þotu litlu má finna hér.