Karlmaður var leiddur í lögreglubíl eftir ólæti við bólusetningaröðina fyrir utan Laugardalshöllina í morgun.

Sjónarvottur sem manninn hafa öskrað ókvæðisorð að börnum og foreldrum þeirra sem biðu í röðinni eftir bólusetningum.

„Þau eru ekki að taka meðvitaða ákvörðun,“ sagði maðurinn við öryggisvörð fyrir utan anddyrið.

Löng röð hefur myndast fyrir utan höllina en í dag verða börn fædd 2008 og 2009 bólusett.

„Ég var stödd fyrir utan anddyrið og sá manninn öskra ókvæðisorðum að fólkinu í röðinni. Hann spurði hvort fólk áttaði sig ekki á því að það væri að sprauta einhverju eiturefni inn í börnin og sagði að foreldrar væru ekki nægilega upplýstir til að taka ákvarðanir,“ segir sjónvarvottur.

Maður skarst í leikinn og reyndi að tala manninn til en ekkert gekk og hélt hann áfram að mótmæla þar til lögreglan mætti á svæðið og leiddi hann í lögreglubíl.

Lögreglan leiddi mótmælandann burt.
Mynd: Aðsend

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem einstaklingur hefur mótmælt bólusetningum. Kona var leidd í lögreglubíl eftir mikil ólæti við bólusetningaröð við Suðurlandsbraut þegar bólusetning þungaðra kvenna hófst.

Konan öskraði yfir hópinn að bóluefnin væru eitur, að bólusetningarnar væru skaðlegar og að verið væri að myrða börn í móðurkviði.