Lovísa Arnardóttir
lovisaa@frettabladid.is
Miðvikudagur 1. febrúar 2023
11.03 GMT

Steinbergur Finnbogason lögmaður vill að látið verði af „færibandavinnu“ lögreglu og dómstóla þegar kemur að einangrunarvist gæsluvarðhaldsfanga. Svört skýrsla Íslandsdeildar Amnesty á Íslandi sem kom út í gær sagði slíkri vist beitt óhóflega á Íslandi.

Steinbergur gerir skýrslunni skil í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag sem hann titlar Íslenskar pyntingar. Í grein sinni bendir hann á að Amnesty International hefur að lokinni ítarlegri skoðun gefið út það álit sitt að á Íslandi sé einangrun í gæsluvarðhaldi beitt sem vísvitandi pyntingartæki.

Steinbergur starfar sem verjandi grunaðra einstaklinga en hann hefur einnig reynslu af því sjálfur að vera vistaður í einangrun. Það gerðist í kjölfar þess að hann var handtekinn árið 2016 á skrifstofu héraðssaksóknara en þangað var hann kominn til að vera viðstaddur skýrslutökur af skjólstæðingi sínum sem var sakborningur í umfangsmiklu peningaþvættismáli. Honum voru síðar dæmdar 1,5 milljón í miskabætur vegna frelsissviptinga og annarra rannsóknaraðgerða lögreglunnar vegna handtökunnar og einangrunarvistarinnar.

„Þetta mál fór nú nokkuð hátt á sínum tíma en ég var settur í þriggja daga einangrunarvist og var á Skólavörðustígnum nokkrum mánuðum áður en fangelsinu var lokað,“ segir Steinbergur í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að hann hafi vegna þessarar reynslu látið sig málið varða.

„Það fer enginn í gegnum þessa lífsreynslu öðruvísi en að það marki djúp spor í viðkomandi um aldur og ævi. Að fá allan þunga ríkisvaldsins á sig er mjög stórt,“ segir Steinbergur sem vill að það kerfi sem er hér sé endurskoðað og settar skýrari reglur um það hvenær eigi að einangrunarvista, hvort það eigi yfir höfuð að gera það og svo hversu lengi hún varir.

Í skýrslu Amnesty er bent á að ákvörðunin um einangrunarvist fari oft frá lögreglu, til ákæruvalds og til dómara án þess þó að alvarleg skoðun fari fram á nauðsyn hennar. Til dæmis kemur fram að á þriggja ára tímabili frá 2016 til 2018 hafi dómari samþykkt nær allar beiðnir um einangrun í gæsluvarðhaldi.

„Þetta er stórt vandamál hjá okkur. Þetta er einhvers konar færiband. Lögreglan fer í héraðsdóm með beiðni og það er einhvern veginn þegjandi samkomulag um að þetta eigi að fara í gegn,“ segir hann að fyrir verjendur sé þetta erfið staða því við þessar aðstæður fái þeir aðeins beiðni lögreglu en ekki gögnin sem fylgja. Í kjölfarið geti þeir ekki, eða viti ekki, hvernig þeir eigi að verjast beiðninni.

„Það er vísað til svokallaðra rannsóknarhagsmuna og það eru bara ákæruvald og dómari sem eru með gögnin,“ segir Steinbergur og að til dæmis í hans máli hafi það blasað við að hann hafi ekki átt að vera vistaður í einangrun og telur að ef verjandi hans hefði séð gögnin hefði hann getað varist því betur.


Það fer enginn í gegnum þessa lífsreynslu öðruvísi en að það marki djúp spor í viðkomandi um aldur og ævi. Að fá allan þunga ríkisvaldsins á sig er mjög stórt


Skortir reglur og leiðbeiningar

Hann segir að annað sem hafi verið gert athugasemdir við í kjölfar málsins hans, frá bæði Lögmannafélagi Íslands og öðrum, sé húsleit lögreglunnar á lögmannsskrifstofu hans. Hann segir það liggja fyrir hjá Mannréttindadómstóli Evrópu til dæmis hvaða aðferðarfræði á að nota en að hér á Íslandi sé þetta nánast takmarkalaust. Hjá honum voru tekin um tvö þúsund skjöl sem hann hafi svo fengið héraðsdóm til að eyða en segir að núna, mörgum árum síðar, sé enn ekki búið að setja neinar reglur um þessa framkvæmd.

„Það er sama og með gæsluvarðhaldið. Það vantar allar reglur. Það eru engar reglur um hvað eigi að gera við fatlaða, getfatlaða eða hvað þá börn.“

Steinbergur gagnrýnir einnig að það sé alltaf gengið alla leið. Það séu til leiðir til að takmarka samskipti einstaklinga við aðra, aðrar en að einangrunarvista þá. Það sé hægt að takmarka samskipti við ákveðna einstaklinga, halda fólki aðskildum eða takmarka aðgang að til dæmis fjölmiðlum. En þetta sé sjaldnar notað.

„Það er óskiljanlegt af hverju einhver þarf svona mikla einangrun og í mínum huga er það að setja einhvern í algera einangrun til að vernda rannsóknarhagsmuni er augljóslega bara til að þvinga fram játningu eða upplýsingar í skýrslu og í mínum huga er það bara pynting, og í huga Amnesty líka.“

Skýra þörfina

Amnesty gengur í raun svo langt í skýrslunni og afstöðu sinni að vilja alveg banna einangrunarvist á meðan gæsluvarðhaldi til verndar rannsóknarhagsmuna en Steinbergur segir að hann geti ekki alveg gengið svo langt.

„Lausnin er mjög einföld. Hún er sú að þetta sé raunverulega metið í hvert sinn og þá sérstaklega þörfin á því hversu mikla einangrun þarf,“ segir Steinbergur og að látið sé í raun af þeirri færibandavinnu sem hann segir þetta vera og Amnesty talar um í skýrslunni.

Hann tekur dæmi um það að banna aðgang að fjölmiðlum og hversu skrítið það sé.

„Erum við enn á þeim stað að við höldum að fólk sé að senda skilaboð til gæsluvarðhaldsfanga í smáauglýsingum í Fréttablaðinu? Af hverju má ekki horfa á Matlock? Af hverju eru gæsluvarðhaldsfangar með DVD spilara, átta tommu skjá og rispaða diska? Hvaða tilgangi þjónar það?“

Þá segir hann skyggðu glerin algera firringu og telur mjög ólíklegt að einhver ætli sér að mæta fyrir utan Hólmsheiði til að eiga samskipti við gæsluvarðhaldsfanga í gegnum gler.

„Í þessum dæmum þá verðum við að hugsa um heildarhagsmunina og ef það myndi gerast einu sinni eru þá rannsóknarhagsmunirnir það mikilvægir í fíkniefnainnflutningi eða einhverju öðru máli að við eigum að hætta á það að stórskaða fólk?,“ segir Steinbergur.

Fréttin hefur verið leiðrétt og því bætt við að Amnesty er á móti einangrunarvist á meðan gæsluvarðhaldi stendur til verndar rannsóknarhagsmuna. Leiðrétt klukkan 13:33 þann 1.2.2023.

„Staða Amnesty International er sú að aldrei skal beita einangrunarvist í gæsluvarðhaldi til þess eins að vernda rannsóknarhagsmuni. Ekki alfarið í gæsluvarðhaldi. Við teljum það alfarið stríða gegn alþjóðlegri mannréttindalöggjöf um nauðsyn og meðalhóf. Önnur og vægari úrræði eru tiltæk til að vernda rannsóknarhagsmuni,“ segir í pósti frá Amnesty vegna fréttarinnar.

Athugasemdir