Innrás Rússa í Úkraínu hefur snúist upp í grimmilega stórskotaliðsbardaga. Bæði Úkraínumenn og Rússar hafa grafið niður í sterkar varnarstöður og það verður erfitt og tímafrekt að taka hvaða nýja svæði sem er.

Þetta segir Óskar Hallgrímsson ljósmyndari sem býr í Úkraínu. Hann spáir að stríðið dragist mjög á langinn, enda að mestu horfið sem fréttamál af forsíðum fjölmiðla. Einkum tvö Evrópuríki beri mesta ábyrgð á þessari þróun.

Óskar segir að refsiaðgerðir hafi áhrif á almenning í Rússlandi en ekki styrk Rússa til að halda stríðinu áfram. Hann segir að Þýskaland og Frakkland finni sífellt leiðir til að fara í kringum refsiaðgerðirnar og greiði fyrir orkuna í rúblum.

„Evrópa er bókstaflega að fjármagna þetta stríð,“ segir Óskar.

Óskar segir að nýleg greining á fjöldagröfunum í kringum Mariupol hafi leitt í ljós að þar gætu verið allt að 5.000 nýjar grafir til viðbótar 9.000 sem hafi þegar fundist. Manntjón rússneska hersins sé þó margfalt meira en Úkrínufólks.

Óhætt sé að fullyrða að dánartölur Rússa séu á bilinu 18.000-30.000 hermenn.

„Það er meira á þremur mánuðum en sovéski Rauði herinn tapaði í öllu 10 ára stríðinu í Afganistan,“ segir Óskar í færslu á facebook.