Ester Frímannsdóttir óskar eftir nýrnagjafa fyrir dóttur sína, Katrínu Emmu, sem verður tveggja ára í júlí næstkomandi.

„Katrín Emma fæddist með aðeins eitt nýra sem hefur um það bil 10 prósent starfsemi og er því með lokastigs nýrnabilun,“ skrifar Ester í færslu á Facebook sem búið er að deila yfir þúsund sinnum.

Nýlega braut Katrín Emma tíu kílóa múrinn sem miðað er við að börn þurfi að ná til að fara í nýrnaígræðslu. Ester segir að enginn gjafi sem passar hafi fundist í hennar nánasta umhverfi og kallar hún því eftir aðstoð.

„Í dag skerðir sjúkdómurinn lífsgæði hennar. Hún glímir við járnskort, hækkaðan blóðþrýsting, listarleysi og fleira sem algengt er að fylgi nýrnabilun. Hún hefur ekki enn þurft að fara í kvið- eða blóðskilun og er vonin að hún sleppi við það ef við náum að finna gjafa fyrir hana í tæka tíð.“

Flókin nýrnaígræðsla

Katrín Emma er í blóðflokki A+ og útskýrir Ester að væntanlegur nýrnagjafi þurfi að uppfylla ýmis skilyrði um heilsufar og mikilvægt sé að hann sé andlega, líkamlega og félagslega tilbúin til þess að gefa nýra.

„Þar sem nýrnaígræðslan verður aðeins flóknari hjá Katrínu Emmu en gengur og gerist þá mun aðgerðin vera gerð í Svíþjóð, öllum líkindum í Stokkhólmi og þarf því gjafinn að vera tilbúinn í að fara þangað þegar að því kemur.“ Ferðin verður greidd af sjúkratryggingum.

Ef þú er tilbúin til að gerast nýrnagjafi getur þú haft samband við Ígræðsludeild Landspítalans í síma 543-2200. Frekari upplýsingar um nýrnagjöf má finna hér.

Posted by Ævar Þór Benediktsson on Friday, May 7, 2021