Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur óskað eftir að fá Vegagerðina á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis til þess að ræða málefni Hringbrautar. Ekið var á þrettán ára stúlku á gatnamótin Hringbrautar og Meistaravalla á miðvikudaginn.

Slysið vakti miklar og heitar umræður um umferðaröryggismál við Hringbraut og varð það til þess að Reykjavíkurborg setti af stað gangbrautarvörslu á gatnamótunum til að fylgja börnum á leið í skóla yfir götuna.

Sjá einnig: Ekið á barn við Hring­braut

„Vegagerðin er veghaldari á Hringbrautinni og Hringbrautin er þjóðvegur í þéttbýli og mér finnst bara miðað við það sem gerðist núna í vikunni þá finnst mér brýnt að heyra hvernig Vegagerðin sér öryggismálin við Hringbrautina fyrir sér. Það er brýnt að öryggi vegfarenda sé tryggt með öllum ráðum,“ segir Rósa Björk í samtali við Fréttablaðið. 

Hefur hún óskað eftir því að fulltrúar Vegagerðarinnar komi á fund nefndarinnar sem fyrst, helst fyrir lok næstu viku. 

Sjá einnig: Íbúar æfir yfir að­gerða­leysi eftir slysið við Hring­braut

„Það skiptir ekki máli hver ber ábyrgð á veginum, öryggi gangandi vegfarenda verður alltaf að vera tryggt. Dæmin hafa bara sýnt það að í kring um Hringbrautina, í afar fjölmennu hverfi, þar sem eru skólabörn og mikið af gangandi vegfarendur, að ástandið er ekki boðlegt og við verðum að finna lausn á því með öllum hluthafandi,“ segir hún að lokum.