Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum i morgun að öldruðum og öðrum með undirliggjandi sjúkdóma verði boðnir örvunarskammtar af bóluefni við Covid-19.  Ráðist verði í þessar bólusetningar síðar í þessum mánuði.  „Við erum líka að flýta endurbólusetningu þeirra sem fengu Janssen sem eru bæði kennarar og skólastarfsfólk en líka aðrir,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. 

Ríkisstjórnin kynnti þrjár megináherslur vegna stöðunnar í faraldrinum að loknum fundi sínum í dag. Þær lúta að átaki þéttingu landamæravarna með skimun fyrir veirunni hjá þeim sem hafa tengsl við landið, bólusetningarátaki og sérstakra stuðningsaðgerða fyrir heilbrigðiskerfið, einkum Landspítalann.

Um 27 þúsund hafa ekki þegið bólusetningu

Auk örvunarskammta fyrir þá sem þegar hafa þegið bólusetningu verður reynt enn frekar að ná til þeirra sem ekki hafa þegið boð um bólusetningu. Um er að ræða 27 þúsund manns.

„Við viljum ná betur til þessa hóps og reyna að fá hann í bólusetningu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir að loknum ríkisstjórnarfundi. Hún nefndi ýmsar mögulegar ástæður fyrir því að fólk þiggi ekki bólusetningu, hluti þessa hóps séu barnshafandi konur og fólk með læknisfræðilegar eða líffræðilegar hindranir.

„Við höfum verið að skoða hvort við getum fengið nánari skýringar á því af hverju fólk mætir ekki í bólusetningu og sú vinna stendur yfir,“ sagði forsætisráðherra aðspurð um leiðir til að bæta enn hlutfall bólusettra og bætti við:

„Við erum að sjá að það er tiltölulega lítill hluti sem er með einhverjar læknisfræðilegar ástæður fyrir því,“ bætir hún við.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra bætir hér við að umræða og almenn hvatning skili líka árangri.

Ráðherrar ræddu við fjölmiðla eftir rúmlega þriggja tíma langan ríkisstjórnarfund í morgun.
Fréttablaðið/Eyþór

„Við höfum séð það undanfarið að almenn umræða og almenn hvatning um gildi bólusetninga er að skila árangri. Þessi umræða um örvunarbólusetningar er að skila því að fólk er að koma í meiri mæli.“ Segir Svandís og bendir á að nú í sumar hafi um 100 manns verið að mæta á í bólusetningu á degi hverjum.

„En við þurfum að halda áfram að hvetja fólk og ég nota þetta tækifæri til að hvetja það fólk sem ekki hefur enn þá komið í bólusetningu að gera það."

Bólusett fólk þurfi ekkert að óttast lengur

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir að þrátt fyrir allt hafi orðið alger vatnaskil með bólusetningunum. Fullfrískt fólk á miðjum aldri sem þegið hafi bólusetningu eigi ekki að þurfa að óttast neitt. Það eigi að geta lifað lífi sínu nokkuð óraskað.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ræddi við Fréttablaðið eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Fréttablaðið/Eyþór

„Það hefur komið í ljós að bólusetningar veita gríðarlega sterka vörn gegn veikindum og bólusetningaaðgerðin hefur heppnast frábærlega. Við byggjum á þeim árangri í dag og sjáum að inn í heilbrigðiskerfinu erum við varla með dæmi um veikt bólusett fólk og engan í gjörgæslu. Þannig að faraldurinn er ekki sami faraldur og hjá óbólusettri þjóð,“ segir Bjarni. Hann segir virkni bóluefnanna ekki hafa þurft að koma á óvart.

„Það lá fyrir samkvæmt klínískum rannsóknum og þá vísa ég í rannsóknir sem voru forsenda fyrir markaðsleyfum þessara lyfja að þau veittu ekki 100 prósent vörn gegn smitum. Þannig að það hefði ekki átt að koma á óvart í sjálfu sér að vörnin sé kannski ívið minni en við vorum að vonast til. Aðalatriðið er það að okkur hefur tekist að skapa hérna skjól fyrir þá sem þiggja bólusetningu. Þeir njóta góðs af henni þannig að þeir veikjast ekki alvarlega. Það er alger yfirgnæfandi meginregla.“

Tilbúin í bólusetningar barna

Katrín var að lokum spurð um bólusetningar barna. Hún sagði þær enn til skoðunar hjá sóttvarnayfirvöldum. Við munum taka þá ákvörðun þegar þeirri skoðun sóttvarnayfirvalda er lokið en það liggur fyrir að við erum algerlega tilbúin að fara í þá framkvæmd.“