Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að slysi sem varð á göngustíg á móts við Hagasel 14 til 22 í Breiðholti laugardagsmorguninn 16. janúar síðastliðin.

Tilkynning um slysið barst kl. 8.13 og var þá tilkynnt um að karlmaður á sjötugsaldri hefði fallið af reiðhjóli. Hann var fluttur á slysadeild Landspítalans, en maðurinn lést á spítalanum tveimur dögum síðar eins og áður hefur komið fram.

Þeir sem kunna að geta veitt upplýsingar um slysið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu, en upplýsingum má koma á framfæri í síma 444 1000, með einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið adalsteinna@lrh.is