Heil­brigðis­yfir­völd hafa óskað eftir liðsinni heil­brigðis­starfs­fólks úr hópi lækna, hjúkrunar­fræðinga og sjúkra­liða í svo­kallaða bak­varða­sveit heil­brigðis­þjónustunnar.

Greint er frá þessu á vef Stjórnar­ráðsins en þar segir að leitað sé að fólki sem hefur að­stæður og er reiðu­búið að koma tíma­bundið til starfa í heil­brigðis­þjónustunni með skömmum fyrir­vara, hvort heldur í fullt starf, hluta­starf eða í tíma­vinnu, eftir því sem að­stæður leyfa.

„Fyrir­sjáan­legt er að mikil­vægar heil­brigðis­stofnanir muni á næstunni þurfa að takast á við mönnunar­vanda vegna CO­VID–19 veirunnar vegna veikinda­fjar­vista eða fjar­vista heil­brigðis­starfs­fólks sem þarf að sitja tíma­bundið í sótt­kví, líkt og þegar eru dæmi um. Með því að koma á fót bak­varða­sveit eins og hér um ræðir, með lista yfir heil­brigðis­starfs­fólk sem er reiðu­búið til að hlaupa í skarðið ef á reynir, standa vonir til þess að heil­brigðis­stofnanir geti mannað í stöður með hraði þegar á þarf að halda.


Fámennt og viðkvæmt kerfi


Alma D. Möller land­læknir tjáði sig um bak­varða­sveitina á blaða­manna­fundi sem hófst klukkan 14 í dag.

„Við biðlum til heil­brigðis­starfs­manna sem kannski ekki eru í starfi eða starfa utan opin­bera kerfisins til að skrá sig,“ sagði hún. „Þetta gerum við vegna þess að við búumst við auknu á­lagi vegna CO­VID-19 en við verðum að sjálf­sögðu að muna að veita aðra nauð­syn­lega þjónustu. Við gerum okkur grein fyrir því að ís­lenskt heil­brigðis­kerfi er fá­mennt og við­kvæmara en ella fyrir á­lagi og við vitum að við höfum haft við­varandi skort á heil­brigðis­starfs­fóki.“

Alma skráði sig sjálf sem gjör­gæslu­lækni á fundinum og var hún fyrst til að skrá sig í sveitina.


Ræða við fleiri félög á næstu dögum

Í fréttinni á vef Stjórnar­ráðsins kemur fram að Fé­lag ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga, Lækna­fé­lag Ís­lands, Sjúkra­liða­fé­lag Ís­lands, heil­brigðis­ráð­herra, land­læknir, sótt­varna­læknir og ríkis­lög­reglu­stjóri standi saman að yfir­lýsingu um bak­varða­sveit heil­brigðis­þjónustunnar og er hún hér með­fylgjandi. Stefnt er að því að ræða við fé­lög fleiri heil­brigðis­stétta á næstu dögum um mögu­lega að­komu þeirra að bak­varða­sveitinni.

Heil­brigðis­ráðu­neytið hefur út­búið raf­rænt skráningar­form fyrir þá sem eru reiðu­búnir að skrá sig í bak­varða­sveitina. Fólki gefst kostur á að skrá sig í tíma­vinnu og jafn­vel í fullt starf eða hluta­starf í allt að tvo mánuði ef hentar. Laun taka mið af kjara­samningi/stofnana­samningi við­komandi stéttar­fé­lags á við­komandi stofnun. Skráningar­formið er að­gengi­legt á vef heil­brigðis­ráðu­neytisins, www.hrn.is.

Hér að neðan má sjá nokkrar spurningar og svör um bakvarðasveitina sem birtar eru á vef Stjórnarráðsins.

Spurt og svarað um bak­varða­sveitina


Eftir hverjum er óskað í bak­varða­sveitina?

Heil­brigðis­starfs­fólki úr hópi lækna, hjúkrunar­fræðinga og sjúkra­liða.

Til hve langs tíma?

Leitað er að fólki sem getur skuld­bundið sig tíma­bundið í allt að tvo mánuði, hvort sem um er að ræða fullt starf, hluta­starf eða tíma­vinnu.

Hver eru launin?

Laun taka mið af kjara­samningi við­komandi stéttar­fé­lags á við­komandi stofnun.

Hver eru réttindi þeirra sem ráða sig til starfa?

Or­lofs­réttindi verða greidd jafn­óðum. Veikinda­réttur starfs­fólks sem ráðið er í tíma­vinnu eða skemur en tvo mánuði er í sam­ræmi við á­kvæði kjara­samninga við ríkið. Veikinda­rétturinn getur því verið allt að 30 dagar.

Hvar skráir fólk sig í bak­varða­sveitina?

Heil­brigðis­ráðu­neytið hefur út­búið raf­rænt skráningar­form í þessu skyni, vin­sam­legast smellið á tengilinn.

Hvernig verður staðið að ráðningunni?

Þær heil­brigðis­stofnanir sem óska eftir að ráða sér liðs­auka úr bak­varða­sveit heil­brigðis­þjónustunnar geta nálgast lista með upp­lýsingum um þá sem hafa skráð sig til þátt­töku hjá heil­brigðis­ráðu­neytinu. Stofnanirnar munu sjálfar hafa beint sam­band við bak­verði og verður ráðningar­sam­bandið á milli við­komandi stofnunar og þess/þeirra bak­varða sem ráða sig til starfa.