Á fimmtudag og föstudag getur fólk komið með merkjavöru sem það á í fataskápnum og skilið hana eftir hjá fataleigunni Spjara í skiptum fyrir inneign á leigu.
Þær Patricia Anna Þormar, Kristín Edda Óskarsdóttir og Sigríður Guðjónsdóttir standa að baki fataleigunni sem tók til starfa fyrir um ári síðan.
Í tilefni af evrópsku nýtnivikunni sem stendur til 27. nóvember óska þær eftir fötum til að bæta við lagerinn. Þema vikunnar í ár er sjálfbærni og hringrás textíls undir slagorðinu „Sóun er ekki lengur í tísku“.

Fá inneign í stað fatanna
„Við erum alltaf að leita leiða til að auka við lagerinn með sjálfbærum hætti. Við vitum að það hanga flíkur óhreyfðar í skápunum hjá fólki sem fleiri geta notað,“ segir Kristín og að í staðinn fyrir flíkurnar fái fólk annað hvort inneign hjá þeim eða að þær kaupi flíkurnar af þeim.
„Segjum að fólk komi með Stine Goya-kjól sem það hefur aðeins notað nokkrum sinnum, þá getum við tekið hann og í staðinn getur fólk leigt hjá okkur fatnað þrisvar eða fjórum sinnum,“ segir Kristín.
Að sögn Kristínar fari þó algerlega eftir upprunalegu miðaverði flíkurinnar hvað fáist fyrir hana en í þessu dæmi væri miðað við flík sem hafi upprunalega kostað um 60 þúsund. Meðalverð á leigu hjá þeim er um sjö til átta þúsund krónur.
„Við viljum auka úrvalið en gera það á sjálfbæran hátt og fá fólk í lið með okkur,“ segir hún og að það verði hægt að koma til þeirra með flíkur á fimmtudag á milli 13 og 16 og föstudag á milli 12 og 16.
Aðeins tekið við merkjavöru í góðu ástandi
Kristín tekur þó skýrt fram að fólk eigi alls ekki að koma með heilu ruslapokana af fötum sem þær muni fara í gegnum. Þær taki aðeins við merkjavöru og að fötin verði að vera í mjög góðu ásigkomulagi.
„Það er gott að hafa samband við okkur fyrst og þá er hægt að bóka tíma til að fara í gegnum það sem fólk kemur með,“ segir Kristín.
Þetta segir Kristín sniðuga lausn fyrir fólk sem á mikið af fötum í fataskápnum sem það notar ekki lengur og vill kannski fá að prófa annað en ekki eiga það.
Kristín segir að þær taki við öllum stærðum en að þeir biðli sérstaklega til fólks sem á flíkur í stærri stærðum um að koma til þeirra því að það sé skortur á lagernum þeirra á stærri stærðum.
„Það er mikil eftirspurn eftir þeim og við yrðum glaðar yfir að auka úrvalið,“ segir Kristín.