Formaður Slysavarnafélagsins Otti Rafn Sigmarsson Landsbjargar, segir átak Umhverfisstofnunar í aðdraganda jóla, þar sem landsmenn voru minntir á skaðsemi flugelda og hvattir til að halda umhverfisvænni áramót með því að sleppa flugeldum, hafi haft áhrif á flugeldasöluna í ár.
„Ég hugsa að þetta hjá Umhverfisstofnun vegi mjög þungt í okkar tölum og hefur haft einhver áhrif. Við eigum eftir að gera upp alla söluna og svo er auðvitað söludagur eftir á þrettándanum, en tilfinningin er að salan sé svipuð eða jafnvel aðeins lakara en síðustu ár,“ segir Otti.
Að sögn Otta áttu forsvarsmenn Landsbjargar fund með Umhverfisstofnun í síðasta mánuði, meðal annars til að ræða áramótin. Ekkert hafi komið fram á þeim fundi sem benti til þess að stofnunin myndi beita sér á þennan hátt.
„Við fórum yfir með þeim hvað þetta er okkur mikilvæg fjáröflun og hvaða leiðir við höfum farið til að minnka mengun og hvernig við höfum verið að bæta okkur síðustu ár. En það var ekkert talað um það að fara í þessa ofsaherferð gegn okkur,“ segir Otti Rafn, og bætir við að honum þyki það fyrst og fremst leitt að stofnunin hafi kosið að fara þessa leið.
„Flugeldar eru ekki bannaðir og þetta er ekki stefna stjórnvalda í þessu málum. Því er það í besta falli mjög skrýtið að fara fram með þessum hætti, því nú er fullt af hlutum sem menga og við vitum öll af því,“ segir Otti.
Spurður segir Otti að Slysavarnafélagið Landsbjörg hafi reynt að koma til móts við þá sem vilji styrkja björgunarsveitirnar án þess að kaupa af þeim flugelda.
„Eitt af því sem við höfum gert er til dæmis að bjóða upp á rótarskot þar sem við gróðursetjum tré fyrir hvert rótarskot. Það fór rosalega vel af stað þegar við byrjuðum með það fyrst, en svo hefur bara verið mjög lítill áhugi á því, sérstaklega síðustu tvö árin, segir Otti og heldur áfram:
„Fólk vill bara kaupa flugelda og sækist í þá. Þetta snýst ekki bara um að styrkja björgunarsveitina heldur líka um hefðina og það að skjóta upp flugeldum og upplifa áramótin, eins og Íslendingar hafa alltaf gert.“
Otti segir að til standi að hafa samband við Umhverfisstofnun á næstunni, bæði til að ræða átak stofnunarinnar og fara yfir stöðuna.
„Við erum ekkert að fela að flugeldar mengi. En við viljum frekar taka samtalið og gera betur. Eins og þegar flugeldasalan byrjaði fyrst, þá voru augnslys tíð og þá fórum við í gríðarlegt átak í notkun á flugeldagleraugum og höfum haldið því á lofti síðan. En við stefnum á að fara yfir stöðuna með þeim um leið og við höfum svigrúm til,“ segir Otti.