Kristján Logason leiðsögumaður segir frá því að honum hafi skyndilega borist rukkun í heimabanka eftir að hann heimsótti Skálholt nýlega. Hann segir það ekki hafa verið skýrt á staðnum að með því að skrifa nafn sitt í bók hafi hann verið að samþykkja gjaldtöku. Markaðsfulltrúi Skálholts segir að gjaldtakan sé nýtilkomin og enn sé unnið að fyrirkomulagi. Tilkynnt hafi þó verið um gjaldtökuna í sumar. 

Kristján segir frá því í færslu á Facebook að honum hafi skyndilega borist 750 króna rukkun í heimabanka eftir að hann heimsótti Skálholt nýlega. Með honum í för var hópur fólks í ferð sem hann ákvað að stoppa með í stuttu stoppi í Skálholti.

„Ég er leiðsögumaður og var á ferð með kúnna og stoppaði í Skálholti eins og ég geri oft. Fyrir einhverja tilviljun sá ég bókina frammi. Það var verið að biðja fólk að skrifa í hana þannig ég skrifaði nafnið á fyrirtækinu fyrir kurteisissakir,“ segir Kristján í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann segir að svo hafi tíminn liðið en þegar hann kom heim í dag hafði honum borist krafa í póst upp á 750 krónur fyrir heimsókn í Skálholt.

Tilkynnt í júlí

Tilkynnt var í júlí að Kirkjuráð hafi samþykkt á fundi sínum að heimilda stjórn Skálholtsstaðar að innheimta fast gjald af ferðaþjónustufyrirtækjum.

Kristján segir þó að ekki hafi verið sjáanlegar upplýsingar að fólki bæri að greiða fyrir heimsóknina og því brá honum að fá slíkt kröfu í pósti frá þeim. Hann segir að hann hafi vitað að heimta ætti gjald fyrir heimsókn á safnið en að hann hafi ekki farið þangað inn með hópinn.

„Ég hringdi auðvitað því ég var ekki sáttur við þetta. En svörin voru þannig að ég var enn ósáttari. Þá er þetta klósettskattur sem þau eru að setja á. Hann hefur ekki verið tilkynntur einum eða neinum. Ef menn vilja rukka fyrir klósett eða kirkjur þá geta þau gert það þá verða þau að gera það á staðnum og á áberandi hátt, ekki með því að senda mönnum reikning eftir á. Það voru fullt af útlendingum sem skrifuðu í bókina. Ég veit ekki til þess að þeim hafi verið sendur reikningur,“ segir Kristján.

Hann segir að auk þess hafi augljóslega verið haft fyrir því að finna út hvern ætti að senda kröfuna á hann því hann skráði aðeins fyrirtækið sitt í bókina, en ekki nafnið sitt.

„Ég bað auðvitað bara um kreditreikning því þetta væru kaup á þjónustu sem ég bað ekki um,“ segir Kristján og bætir við:  „Þetta er athyglisvert í framkvæmd og meðferð hvernig þau ætla að skilgreina það lagalega að þau ætli að senda mér reikning vegna nafns í einhverri bók.“

Ekki skýrt á bókinni en hafa reynt að koma upplýsingum á framfæri

Erla Þórdís Traustadóttir, markaðsfulltrúi Skálholts, segir í samtali við Fréttablaðið að tilkynnt hafi verið um gjaldtökuna á heimasíðu Skálholts, í fréttatilkynningum og að birtar hafi verið auglýsingar eftir að ákvörðunin hafi verið tekin. Spurð hvort það sé augljóst við bókina sem fólk ritar í hvort þau séu að skrá í gestabók eða skrásetja sig fyrir gjaldtöku segir hún að það gæti verið skýrara á staðnum. Eflaust væri best að hafa það ritað á blað eða skilti sem væri nálægt bókinni.

„Það er kannski ekki beint skýrt á bókinni en við erum búin að reyna að koma þessu á framfæri á eins marga vegu og hægt er. Svona upplýsingar þurfa kannski að meltast. Fólki fannst óþægilegt hversu lítill fyrirvari var á. Mörg fyrirtæki eru búin að selja ferðir með ársfyrirvara og þá bætist svona kostnaður við. Það er auðvitað leiðinlegt og við erum búin að biðjast afsökunar á því. Þar sem þetta er ekki mikill peningur vonuðumst við til þess að fólk yrði velviljað,“ segir Erla

Erla segir að yfirleitt taki fólk vel í gjaldtökuna þegar hún er á staðnum og nær að útskýra hana fyrir þeim. En hún skilji að fólk sem fái óvænta rukkun þyki það óþægilegt.

Hún segir að vegna þess að enginn starfsmaður sé við í kirkjunni eða á safninu alla daga hafi þau ætlað að reyna að ná fram gjaldtökunni með þessum hætti. Hún segir að fyrirkomulag gjaldtökunnar er varðar einstaklinga eigi enn eftir að skýra betur og segir að það sé á ábyrgð stjórnar að gera það.

„Við erum að þróa þessa hugmynd og allar ábendingar eru vel þegnar. Við tökum þetta ekkert nærri okkur og afsökum þessi leiðindi og vonum að það sé hægt að leysa úr þessu,“ segir Erla Þórdís að lokum.

Hér að neðan er hægt að sjá mynd af bókinni umræddu. 

Í tilkynningu á heimasíðu Skálholts, segir að þann 1. september hafi verið hafin gjaldtaka í Skálholti af ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir hvern hópferðabíl sem hefur viðkomu á Skálholtsstað. Af hverjum hópferðabíl sem rúmar 30 farþega eða fleiri kr. 3.000. Af hverjum hópferðabíl sem rúmar færri 30 farþega kr. 1.500. Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að í gjaldinu felist aðgengi farþega að salernum á Skálholtsstað og safni í kjallara kirkjunnar sem tengt er uppgraftarsvæði sunnan kirkjunnar gegnum göng. Þar segir að þetta sé leið í að auka þjónustugæði staðarins, ná talningu og betri yfirsýn yfir allan fjöldann sem heimsækir staðinn. 

Þá kemur einnig fram að til standi að hefja gjaldtöku af þeim gestum sem koma á öðrum farartækjum en hópferðabílum, svo sem einstaklingar sem koma á bílaleigubílum. Ekki hefur enn verið kynnt hvernig þeirri gjaldtöku verður háttað.