Al­manna­varnir og lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum hafa haldið gos­stöðvunum í Mera­dölum lokuðum síðustu daga vegna veðurs.

Þetta kemur sér illa fyrir þá sem ætla sér að sjá eld­gosið berum augum en hundruð ef ekki þúsundir hafa lagt leið sína á Reykja­nesið til þess að sjá þetta ein­staka sjónar­spil.

Frá því að lokunar­skipu­lag vegna eld­gossins var virkjað hefur Suður­strandar­vegi Grindar­víkur­megin og Vig­dísar­vallar­vegi að austan­verðu verið lokað.

Allir bílar sem ekið er að svæðinu eru stöðvaðir af lög­reglu og vísað í burtu ef ferða­langar lýsa yfir að þeir ætli sér að sjá eld­gosið. Að sögn lög­reglu og al­manna­varna eru að­stæður ein­fald­lega allt of hættu­legar fyrir al­menning.

„Staðan er búin að vera góð. Það er fullt af fólki að koma og allir sem ætla upp að gos­stöðvum eru beðnir um að snúið við,“ segir Daníel Freyr Ólafs­son, hjá lög­reglunni á Suður­nesjum, en hann hefur staðið vaktina á Suður­strandar­vegi.

Daníel segir að sumir ferða­langar séu ó­sáttir við lokunina en enginn hafi neitað að fylgja fyrir­mælum lög­reglu. Ein­hverjir bílar hafa þó fengið að fara fram hjá lokuninni.

„Þeir sem eiga erindi annað en á gos­stöðvarnar mega fara fram hjá. Svo eru fleiri lög­reglu­bílar þarna upp frá sem fylgjast með bíla­stæðinu,“ segir Daníel.

Á fyrstu lokun að Suður­strandar­vegi Grindar­víkur­megin var mikið af ó­á­nægður ferða­mönnum sem vildu komast að gos­stöðvunum. Margir hafa ferðast langar vega­lengdir og er nokkuð sama um hætturnar sem leiðin að gosinu býr yfir og hafa hundsað skila­boð al­manna­varna um allar lokanir. Ekki höfðu allir á­huga á að ræða við blaða­mann, en flestir vildu bara drífa sig burt úr vonda veðrin

Christian Hennek var óánægður með að fá ekki að fara að eldgosinu en vonast til að geta séð gosið áður en hann heldur aftur til Þýskalands.
Fréttablaðið/Anton Brink

Christian Hennek er þýskur ferða­maður sem kom hingað til landsins áður en eld­gosið hófst. Hann segir að eld­gos sé ein­stakur náttúru­við­burður sem hann langi að sjá, en er ó­á­nægður með að mega ekki fara að gosinu í dag.

„Þegar ég kom til Ís­lands þá var ekkert eld­gos, þannig að ég tel mig vera smá heppinn. Eld­gosið er sem betur fer ekki hættu­legt fyrir Ís­lendinga, en þetta er ein­stakur náttúru­við­burður,“ segir Christian.

Hann segist vonast til þess að sjá eld­gosið áður en hann fer heim til Þýska­lands.

„Lög­reglan sagði við mig að vegna veðursins þá væri lokað á gossvæðið, þannig ég fæ ekki að sjá eld­gosið í dag. Ég er smá fúll yfir þessu því ég veit að ég myndi ekki týnast í fjöllunum. Ég myndi geta þetta,“ segir Christian.

Ekki er vitað hversu lengi lokunin mun vera í gildi, en ljóst er að þeir sem vilja leggja leið sína að Mera­dölum þurfa að bíða að­eins lengur eftir tæki­færinu til þess.