„Ég spyr mig margra spurninga en fæ mjög lítið af svörum,“ segir Karl B. Örvarsson í skólabúðunum í Reykjaskóla, vegna áforma Húnaþings vestra um að hefja viðræður við Ungmennafélag Íslands um að taka við rekstri búðanna.
Karl og kona hans Halldóra Árnadóttir hafa rekið skólabúðirnar í Hrútafirði í tuttugu ár. Aðspurður segir Karl þau alls ekki hafa ætlað sér að hætta rekstrinum. UMFÍ vill taka við rekstri skólabúðanna frá og með næsta hausti og byggðarráð hefur falið sveitarstjóranum að koma á viðræðum við félagið.
Bréf UMFÍ sem dagsett er 30. desember var lagt fram á fundi byggðarráðs á mánudaginn var. Karl kveðst ekki hafa séð bréfið og ekkert heyrt frá Ungmennafélaginu sjálfu.
„Ég veit bara ekkert um hvað málið snýst. Þeir hafa verið að segja mér að UMFÍ væri að seilast eftir að koma að rekstri skólabúðanna en þá hefði náttúrlega verið langhreinlegast hjá sveitarstjórn að segja að það væru rekstraraðilar þarna og búnir að vera í tuttugu ár við góðan orðstír,“ segir Karl vonsvikinn með þróun mála.
„Ef þetta eru verðlaunin sem þau eru að veita okkur þá eru þau mjög sérstök,“ segir Karl. „Þannig að það er einhver tík í þessu sem heitir pólitík.“
Á fundi byggðarráðs var sveitarstjóra ásamt formanni ráðsins falið að ræða við Karl og Halldóru um erindi UMFÍ. Karl segist enn ekki hafa svarað beiðni sveitarstjórans um fund.
„Við erum bara að hugsa okkar gang og leita okkur ráða. Við þurfum eiginlega bara aðeins að kyngja þessu því það kemur svo skýrt fram í erindinu frá þeim að þau séu að hugsa um að tala við UMFÍ um að taka við rekstrinum haustið 2022,“ segir Karl.
Samningur Karls og Halldóru rennur út í vor og hefur ekki verið endurnýjaður eins og jafnan áður. „Ef þau vilja ekki hafa okkur áfram þá viljum við náttúrlega fá rök fyrir því og fá að vita hvað við höfum til saka unnið. Við höfum ekkert gert nema að vinna gott starf að okkar mati. Það vilja allir koma og við fáum hrós fyrir það sem við erum að gera,“ segir Karl.
Aðspurður segir Karl að í Reykjaskóla sé tekið á móti 3.200 til 3.500 krökkum úr tólf ára bekk á hverju ári frá því í ágúst fram í júní. Færri komist að en vilji en reksturinn hafi verið erfiður vegna Covid.
„Samt höfum við náð að koma okkur í gegn um þetta án nokkurrar aðstoðar því við höfum hvergi tikkað í boxin. Við stöndum alls staðar í skilum en það eru takmörk fyrir því hvað við getum gengið langt á spariféð okkar. Við höfum sagt í bréfi til sveitarstjórnar að við þurfum tvö til þrjú ár til að ná okkur á strik til að geta farið frá þessu með einhverri reisn. Þetta kemur sér eins illa fyrir okkur og frekast getur verið,“ segir Karl B. Örvarsson.
Fréttin hefur verið uppfærð: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að Fréttablaðið hefði í gær óskað eftir afriti bréfs Ungmennafélags Íslands frá 30. desember síðastliðinn til Húnaþings vestra og að bréfið hefði ekki borist blaðinu. Fyrir mistök var sú beiðni hins vegar ekki send og barst því ekki sveitarfélaginu til afgreiðslu.