Stúdentaráð lýsir yfir vonbrigðum með ákvörðun háskólaráðs um afgreiðslu þjónustusamnings við Útlendingastofnun varðandi aldursgreiningar á ungum hælisleitendum á Íslandi. Allir fulltrúar háskólaráðs nema einn, fulltrúi stúdenta Benedikt Traustason, samþykktu tillögu rektors Háskóla Íslands á fundi síðasta fimmtudag um að skólinn framkvæmi rannsóknir og aldursgreiningar á tönnum hælisleitenda. 

Stúdentaráð segist í yfirlýsingu sinni til fjölmiðla leggjast einróma gegn tillögunni og veltir fyrir sér hvort Háskóli Íslands hafi brotið gegn vísindasiðareglum með því að hafa stundað slíkar rannsóknir áður án samnings. Stúdentaráði hafi borist ábendingar um að tanngreiningar hafi farið fram við Tannlæknadeild í september og nóvember 2018 þegar slíkt átti að vera óheimilt.

„Stúdentaráð telur jafnframt spurningum ósvarað á borð við hvort Háskóli Íslands telji fylgdarlaus börn geti veitt upplýst samþykki fyrir þátttöku þeirra í umræddum rannsóknum og hvort þessar rannsóknir séu valkvæðar. Eins og bent hefur verið á kveða vísindasiðareglur háskólans á um að þessum atriðum sé fullnægt til þess að rannsóknir séu framkvæmdar innan veggja skólans,“ segir í yfirlýsingunni.

Málið er umdeilt innan veggja háskólans og hafa 176 starfsmenn og doktorsnemar af menntavísindasviði, hugvísindasviði og félagsvísindasviði lagst gegn tanngreiningum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vísaði á landlækni, þegar hún var spurð í janúar hvort hún teldi tanngreiningar barna og ungmenna samræmast siðareglum lækna. Taldi hún rannsóknirnar samræmast siðareglum.

Háskóli Íslands á enn eftir að undirrita samninginn við Útlendingastofnun en fimm hælisleitendur bíða nú eftir klínískri munnholsskoðun til aldursgreiningar, en sá sem hefur beðið lengst hefur beðið síðan í september 2018.