Móðir drengs sem varð fyrir líkamsárás í Borgarholtsskóla í gær segir það ekki rétt að um uppgjör vegna fíkniefnaskuldar hafi verið að ræða líkt og nokkrir hafi haldið fram. Hún segir son sinn aldrei hafa neytt fíkniefna og það væri siðferðislega rangt að fjalla um ólögráða einstaklinga á þennan hátt.
Í færslu sem móðirin, Inda Björk Alexandersdóttir, birtir á Facebook síðu sinni segir hún að hún hafi þegar haft samband við fréttamiðla sem héldu því fram að um fíkniefnaskuld hafi verið að ræða, og farið fram á leiðréttingu en enginn hafi haft samband við þau áður en fréttir um málið voru birtar.
Rannsaka málið
Líkt og greint var frá í gær var sérsveit lögreglu kölluð út eftir að tilkynnt hafði verið um ungan mann sem hafði mætt í skólann vopnaður handboltakylfu og hníf en sex voru fluttir á slysadeild í kjölfarið og þrír handteknir.
Einn þeirra var í dag úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald og er málið enn til rannsóknar hjá lögreglu.
Hótað barsmíðum eftir að hafa komið stelpu til varnar
Inda greinir frá því að sonur sinn hafi fyrir nokkrum mánuðum stöðvað þá sem stóðu fyrir árásinni í gær þar sem þeir voru að ganga í skrokk á stelpu. „Síðan þá hefur honum verið hótað barsmíðum og í fyrradag barst honum til eyrna að það væri verið að planleggja stunguárás á sig,“ segir hún í færslunni.
„Þessir drengir reyndu að narra hann út í Spöng þarna rétt hjá Borgarholtsskóla,“ bætir hún við en sonur hennar hafði þá hringt í bróður sinn og látið hann vita. „Bróðir hans fer upp í skóla, reynir að sjatla málin við drengina en það brjótast út slagsmál þar sem þessir drengir ráðast á báða syni mína.“
Að sögn Indu eru báðir synir hennar talsvert lemstraðir og með djúpa skurði á höfði. Annar drengur sem kom bræðrunum til varnar sé síðan handleggsbrotinn. „Ég bið ykkur að róa ykkur í að dæma það sem þarna fór fram, þetta er svakalega erfitt.“
„Ég bendi á að synir mínir voru ekki leiddir burtu frá hvorki skóla né bráðamóttöku í járnum, þeir eru með stöðu þolenda í þessu máli,“ segir hún. „Rétt skal vera rétt, ég er ekki mamman sem hef stungið höfðinu í sandinn þegar börnin mín eiga í hlut en ég ver þá með klóm og kjafti þegar ranglega er að þeim vegið og með hættulegum vopnum eins og var gert í gær.“