Auglýsingastjóri Ríkisútvarpsins hafnar alfarið fullyrðingum Sýnar um stórfelldar niðurgreiðslur RÚV á auglýsingamarkaði.

Í umsögn Sýnar um fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að eftir að nýr þjónustusamningur við RÚV tók gildi um áramótin hafi gjaldskrá auglýsinga lækkað að meðaltali um 30 prósent.

„Í sjónvarpi hefur verið selt með ákveðnu kerfi hjá RÚV í tíu ár. Þetta eru svokallaðir áhorfspunktar og af þeim eru ekki veittir neinir veltutengdir afslættir. Veltutengdir afslættir ganga út á að fyrirtæki fá aukinn afslátt ef þau auglýsa meira. Allir viðskiptavinir borga jafnt óháð stærð,“ segir Einar Logi Vignisson, framkvæmdastjóri RÚV sölu.

Einar segir ekkert að marka fullyrðingar um að verðskráin hafi lækkað. „Verðskrá sjónvarps hækkaði um 6 prósent 1. febrúar. Verðskrá útvarps hækkaði í byrjun desember. Það er ómögulegt að fá það út að verðskráin hafi lækkað um 30 prósent,“ segir hann. „Þá skilja menn ekki hvernig svona áhorfs- og hlustunarpunktakerfi virkar. Það er verið að láta þetta líta út fyrir að vera annað en það er.“


Með þjónustusamningi frá því fyrir áramót fylgdi yfirlýsing ráðherra og Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra um að þess sé gætt að auglýsingakjör séu gegnsæ, öllum aðgengileg og að jafnræðis sé gætt. Ekki séu veittir afslættir umfram það sem segi í verðskrá. Tími veltutengds viðskiptaafsláttar sé liðinn.


„Það sem vísað er til í þessari yfirlýsingu er að verið sé að taka upp sama kerfi í útvarpi. Það er engin verðbreyting á markaðnum, það er ekki verið að lækka verðið til auglýsenda,“ segir Einar.

Samkvæmt upplýsingum frá Sýn er um að ræða verðskrá auglýsinga í útvarpi. Þar sé verð á hlustun auglýsingar á hverja þúsund hlustendur 50 krónur á hvert gildi. Til dæmis séu átta gildi á hverja sekúndu klukkan 7.00 á Rás 2, eða 400 krónur. Þá sé sekúnduverðið 549 krónur á gömlu verðskránni.

Einar segir að svo geti virst sem verðskráin sé 20 prósentum lægri.

„Punktakerfið er þannig að fastar birtingar kosta 10 prósentum meira. En þú færð engan afslátt í punktakerfinu. Í punktakerfinu borga menn hærra verð fyrir fastar birtingar en þeir gerðu áður. Aðalmálið er það að ekki er verið að lækka verð til auglýsenda, þvert á móti.“