Viðreisn efnahagslífsins var veikari hér á landi vegna heimsfaraldurs Covid en flestra annarra Evrópuríkja frá síðasta fjórðungi 2019 fram á mitt þetta ár.

Þetta kemur fram í grein fyrrverandi forsætisráðherra, Þorsteins Pálssonar, núverandi áhrifamanns í Viðreisn, í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt gögnum Hagstofu og OECD sem mæli þessar breytingar, hafi Bandaríkin þegar náð sömu verðmætasköpun og fyrir faraldurinn. Í Kína sé landsframleiðslan orðin meiri en fyrir faraldur. Ísland sé á pari við Spán sem hafi þó orðið fyrir meira áfalli en Ísland. „Ísland er sannarlega í fremstu röð í sóttvörnum. Það er því himinhrópandi þverstæða að við séum á eftir öðrum í efnahagslegri viðspyrnu,“ segir Þorsteinn.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að umfjöllun Þorsteins gefi ranga mynd af þróun mála. Á fjórða fjórðungi 2019 hafi verið bókfærður verulegur þjónustu­útflutningur á vegum lyfjafyrirtækja. Þessi útflutningur skekki myndina og hafi lítið sem ekkert með innlend efnahagsumsvif að gera. „Ef við miðum við eðlilegra samanburðartímabil, hvort sem er þriðja ársfjórðung eða árið í heild, er sagan allt önnur, þróunin sambærileg eða betri en í öðrum Evrópuríkjum,“ segir Bjarni.

Hann bendir á að í skýrslu OECD síðan í júlí segi að vel hafi gengið og viðsnúningur sé fram undan í efnahagslífinu.

„Okkur hefur gengið einstaklega vel að takast á við efnahagsáfallið. Innlend eftirspurn dróst minna saman á Íslandi árið 2020 en alls staðar í Evrópu, að Danmörku undanskilinni. Þetta er auðvitað sá mælikvarði sem mestu skiptir fyrir heimilin í landinu,“ segir Bjarni.

Þorsteinn byggir greiningu sína að nokkru á erindi Más Guðmundssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra. Már segist ekki leggja mat á stöðuna í dag. Reynslan hér á landi sem og rannsóknir annars staðar, sýni að faraldurinn hafi áhrif á efnahagsumsvif óháð sóttvörnum. Reynslan sýni líka að vel útfærðar sóttvarnir hafi neikvæð skammtímaáhrif á efnahagsumsvif en geti haft jákvæð áhrif til lengri tíma.

„Ísland væri ekki eftirbátur í viðspyrnu Evrópuþjóða ef innistæða væri fyrir staðhæfingum um efnahagslegan stöðugleika,“ skrifar Þorsteinn.