Sigurður Ingi Jóhannsson í Framsókn segist ekki geta tekið undir hugmyndir Kristrúnar Frostadóttur í Samfylkingunni um að skattleggja tækjuhæsta eina prósentið.

Í kosningavaktinni á Hringbraut í kvöld mæta þau Sigurður Ingi Jóhannsson í Framsókn, Kristrún Frostadóttir í Samfylkingunni og Orri Páll Jóhannsson í Vinstri grænum til að ræða allt það helsta fyrir Alþingiskosningar.

Frambjóðendurnir ræða meðal annars aðferðir til að ná fram jöfnuði til að styðja við þau sem hafa það verst í samfélaginu. Orri Páll og Sigurður Ingi sögðust ætla að leggja áherslu á þrepaskiptan tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt.

„Við viljum nota skattkerfið til tekjujafnaðar. Ná fram þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti þannig að þau sem breiðustu bökin hafa greiða meira til samfélagsins en um leið tryggja að þau sem þurfa á því að halda fái að njóta á móti,“ segir Orri Páll í kosningaþætti Hringbrautar sem verður sýndur í kvöld.

Orri Páll segir VG vilja ná fram þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti.
Hringbraut/Skjáskot

Kristrún sagði þau áform ekki skila miklu.

„Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur hljómar vel en skilar kannski undir milljarði en stóreignaskattur getur strax skilað um tíu milljörðum. Þetta er grundvallarmál að flokkar sem eru vinstri megin við miðju sýni að þeir geti fjármagnað beint hlutina eins og þeir eru.“ segir Kristrún en Sigurður Ingi gat ekki stutt þá hugmynd.

„Við hræðumst svolítið þessa stórkallalegu skattahækkanir á meðal annars á eldra fólk sem samfylkingin ætlar að standa fyrir,“ sagði Sigurður Ingi um stóreignaskattinn og skaut þá Kristrún inn:

„Þetta er augljóslega ekki sami hópurinn, Sigurður Ingi, og þú veist það vel.“

„Augljóslega er verið að hræra í pottinum og einhverjir lenda klárlega - “ hélt Sigurður Ingi áfram.

„Já eignamesta eina prósentið,“ bætti Kristrún við.

„Einhverjir lenda klárlega á gráa svæðinu sem búa bara í stórum húsum. Lykilatriðið inn í næsta kjörtímabil er að við séum í öllum okkar aðgerðum að hugsa um að viðhalda lágu vaxtastigi þannig að efnahagslífið sé í jafnvægi. Ég held að ég og kristrún erum sammála um það,“ sagði Sigurður að lokum og bætti við að flokkurinn hans vildi skoða þrepaskiptan tekjuskatt þannig að þau fyrirtæki sem hagnast mest skili meiri til samfélagsins.

Á það líka við um sjávarútveginn?

„Já,“ svaraði Sigurður Ingi.