Forsvarsmenn Þrúðheima, sem rekið hafa líkamsræktarstöð á Ísafirði í tvö og hálft ár, eru nú að skoða réttarstöðu sína vegna málsmeðferðar sem leiddi til þess að bærinn mun styrkja annan rekstraraðila, Ísófit.

Í vor kallaði bæjarstjórn eftir lausnum til að halda uppi líkamsrækt í bænum og báðir aðilarnir skiluðu inn umsóknum. Rekstrargrundvöllur hefur ekki verið til staðar án aðkomu bæjarins og uppbyggingar er þörf hvað varðar húsnæði. Í júní var kallað eftir skammtímalausn og í júlí gerði bærinn tveggja mánaða samning við Þrúðheima sem fengu þau skilaboð frá sviðsstjóra skóla og tómstundasviðs að það ætti að fara í útboð um haustið.

Um miðjan ágúst var hins vegar samningur við Ísófit kominn á borðið sem var síðan samþykktur með lækkaðri fjárhæð í bæjarstjórn í síðustu viku. Fór þá upphæðin undir útboðsmörkin en Ísafjarðarbær mun greiða 420 þúsund krónur á mánuði með stöðinni næstu þrjú árin. Bæjarfulltrúar minnihluta Í-lista kusu hins vegar gegn samningnum og töluðu um „stjórnsýsluklúður“.

„Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Okkur var ekki tilkynnt um að fallið hefði verið frá því að halda útboð og augljóslega eitthvert samtal í gangi sem við vissum ekki af,“ segir Baldvina Karen Gísladóttir sem rekur Þrúðheima ásamt eiginmanni sínum.

„Við höfum ekkert við Ísófit að sakast en málsmeðferð bæjarins hefur verið mjög ábótavant,“ segir Baldvina. „Okkur hefur verið haldið í myrkrinu og við höfum ekki fengið tækifæri til þess að koma aftur að borðinu.“ Aðspurð um samskipti við bæinn undanfarin tvö og hálft ár segir hún þau frekar lítil og án nokkurra átaka.

Eftir samtal við lögmann kölluðu Baldvina og maður hennar eftir gögnum frá bænum þann 20. ágúst en hafa ekki fengið nein svör. Heldur ekki við því hvenær ætlast sé til að þau loki stöðinni. „Lögmaður okkar er að vinna í erindi til bæjarins og við munum halda áfram að fylgja þessu áfram til að athuga hver réttur okkar er,“ segir hún.

Málið hefur valdið nokkrum titringi í bæjarpólitíkinni og aðsendar greinar hafa verið skrifaðar í hinn vestfirska vefmiðil Bæjarins besta. Ekki náðist í Daníel Jakobsson, formann bæjarráðs, en hann skrifaði grein um málið fyrr í mánuðinum.

„Vissulegar eru hlutir sem hefðu betur mátt fara í þessu ferli. Sérstaklega hefði það mátt taka skemmri tíma og skilgreina hefði mátt betur þær hugmyndir sem við höfðum en þær þróuðust eftir sem tímanum vatt fram og málið var rætt í bæjarráði í fullri sátt að því er virtist,“ segir Daníel í greininni. Enn fremur: „Farið var í nýtt ferli þar sem að þeim og öðrum var boðið að kynna sínar hugmyndir. Niðurstaðan úr því ferli liggur nú fyrir. Aðrir aðilar voru metnir með bestu hugmyndina og þá er lagt til að samið verði við þá.“