Yfir­völd í Rúss­landi hafa hand­tekið hundruð manna sem mót­mæltu her­kvaðningu sem Vla­dimír Pútín greindi fyrst frá í síðustu viku. Víða um Rúss­land hefur verið mót­mælt á­formum Pútín, en her­kvaðningin þýðir að 300 þúsund menn verða kallaðir til að berjast í Úkraínu.

OVD, rúss­nesk mann­réttinda­sam­tök, segja minnst 724 hafa verið hand­teknir í 32 mis­munandi borgum víða um Rúss­land en sam­kvæmt lögum eru sam­komur sem ekki hafa verið sam­þykktar, bannaðar.

Frá því að Pútín til­kynnti á­form sín um her­kvaðninguna hafa rúm­lega þúsund manns verið hand­teknir vegna mót­mæla.

Refsar þeim sem fylgja ekki her­kvaðningu

„Við erum ekki fall­byssu­fóður,“ öskra mót­mælendur meðal annars. BBC greinir frá því að sjö­tíu ára kona sem er and­snúin stríðinu sagðist vera hrædd um ungt fólk sem kallað er að víg­línunum, oft gegn þeirra vilja.

Í til­raun til að koma í veg fyrir að fólk sem sæti her­kvaðningu flýi eða sinni starfi sínu sem her­maður ekki nógu vel, hefur Pútín undir­ritað ný lög sem segja til um að refsingar verði allt að tíu ár fyrir hvern þann her­mann sem er tekinn við að gefast upp, reynir að yfir­gefa herinn eða neitar að berjast.

Til­skipunin er sögð sýna fram á það hversu al­var­legur skortur á rúss­neskum her­mönnum er orðinn.

Ósamþykktar samkomur eru ólöglegar í Rússlandi.
Fréttablaðið/Getty

Fjöldi fólks reynir að flýja land

Frá því að til­skipunin var til­kynnt hafa þúsundir reynt að flýja Rúss­land. Á landa­mærum Rúss­lands og Georgíu teygjast bílaraðirnar rúm­lega þrjá­tíu kíló­metra.

Fjöldi fólks hefur einnig reynt að flýja til Finn­lands, sem einnig er ná­granna­ríki Rúss­lands. Tals­maður landa­mæra­varða Finn­lands sagðist sjá tvö­földun í þeim fjölda sem reynir að komast inn til landsins frá Rúss­landi en í gær til­kynntu finnsk stjórn­völd á­form sín um að stöðva skyldi rúss­neska ferða­menn sem reyna að komast til landsins.