„Eftir að ég er búin að borga mína reikninga, leysa út lyf og kaupa mat, þá er maður farinn að skrapa eftir klinki eftir aðra vikuna í mánuðinum til þess að kaupa sér til matar,“ segir Hildur Oddsdóttir, öryrki og einstæð tveggja barna móðir.

Í síðustu viku greindi Fréttablaðið frá því að ætla megi að tíundi hver öryrki á Íslandi verji meira en 75 prósentum af ráðstöfunartekjum sínum í rekstur húsnæðis, samkvæmt fyrstu niðurstöðum könnunar sem Félagsvísindastofnun vinnur fyrir Öryrkjabandalag Íslands.

„Þetta er alveg hárrétt, það sem hún er að lýsa,“ segir Hildur.

„Ég er öryrki, einstæð móðir með tvö börn heima fyrir og er í félagslegri íbúð. Síðasta árið, af því að allt er vísitölutengt, þá er leigan búin að hækka hver mánaðamót, það er manni alltaf í óhag af því að maður má ekkert við þessu.“

Hún segir stöðuna alltaf hafa verið eins og hún er, en að ástandið hafi versnað eftir Covid og sérstaklega á síðasta ári. Fólk þurfi oft að velja hvert peningarnir fara.

„Þú þarft að velja hvað þú ætlar að gera: ætla ég að leysa út lyf eða ætla ég að kaupa mat, hverju þarf ég að fórna? Fólk er endalaust að fórna einhverju.“

Hildur segist þekkja til fólks sem er á almennum leigumarkaði og er í enn verri stöðu en hún. „Það er staða sem er að éta upp fólk og ráðstöfunartekjurnar fara bara í leigu,“ segir hún og bætir við:

„Það væri rosalegur lúxus ef okkar bætur væru líka vísitölutengdar, þá væri maður að hækka í takt við þessar hækkanir, en því miður er það ekkert að gerast.“

Áður fyrr hafi Hildur verið í þeirri stöðu að á þriðju viku hvers mánaðar hafi ráðstöfunartekjurnar verið gengnar til þurrðar og þá hafi hún þurft að leita til hjálparsamtaka á borð við Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstarf kirkjunnar. Núna sé hún, og fleiri, í þeirri stöðu að peningarnir eru uppurnir eftir aðra viku hvers mánaðar.

„Við búum í mjög ríku og góðu landi þannig að þetta þarf ekki að vera svona.“

„Þetta er ekki í takt við raunveruleikann,“ segir hún.

„Við búum í mjög ríku og góðu landi þannig að þetta þarf ekki að vera svona,“ segir Hildur og bætir við að fólk grípi til ýmissa ráða svo það geti átt peninga út hvern mánuð.

„Fólk hefur verið að setja innlegg á Facebook-síður til að biðja um aðstoð. Það hefur verið rosaleg aukning þar,“ segir Hildur og tekur fram að hún hafi sjálf gert slíkt hið sama.

„Viðbrögðin eru góð, maður sér að fólk er tilbúið að hjálpa hvert öðru en það á samt ekki að þurfa að vera svoleiðis.“