Gripið hefur verið til öryggisráðstafana í utanríkisráðuneytinu í kjölfar líflátshótana í garð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra í tengslum við þriðja orkupakkann. Ráðherra segir í samtali við Fréttablaðið að málið sé komið í farveg hjá Embætti ríkislögreglustjóra.

Atkvæðagreiðsla um þriðja orkupakkann fer fram á Alþingi á mánudaginn.

Vefurinn Fréttatíminn birti í gær frétt þess efnis að samþykkt þriðja orkupakkans gæti „skilað meira en 625 milljónum í vasa utanríkisráðherra“. Í umræðum á samfélagsmiðlum í tengslum við þessa frétt eru dæmi þar sem ráðherra er hótað lífláti eða ofbeldi. Í Fésbókarhópnum Orkan okkar: Baráttuhópur má finna athugasemdina „Kjöldrögum hann“, er þá vísað til Guðlaugs Þórs.

Í athugasemd við færslu þar sem fréttinni er á Facebook má svo finna eftirfarandi athugasemd:

Skjáskot af Facebook.

Í frétt Fréttatímans, sem er á ábyrgð ritstjórans Guðlaugs Hermannssonar, er sagt að Guðlaugur Þór hagnist persónulega á innleiðingu þriðja orkupakkans vegna eignarhalds félags í eigu Ágústu Johnson, eiginkonu hans, á jörðinni Hemrumörk í Skaftárhreppi. Ef virkjað verði í Hólmsá muni félag Ágústu fá greitt fyrir vatnsréttindi. Er því haldið fram að ef lagður verði sæstrengur og raforkuverð hækkar þá gætu þau hjónin hagnast um 625 milljónir á 50 árum.

Umræða um jörðina kom upp í vor í Fésbókarhópnum Orkan okkar: Baráttuhópur í vor, í kjölfar fréttar Eyjunnar um umræðuna sendi utanríkisráðherra frá sér yfirlýsingu um að jörðin hafi verið í eigu Ágústu síðan 2015, þar áður var hún í eigu fjölskyldu hennar. Þar að auki sé Búlandsvirkjun ekki í orkunýtingarflokki í núgildandi rammaáaætlun og að hann hafi engin áform um þá virkjun. Fjölskylda hans hefur enga aðild að áformum, enda telji þau fjölskyldan að slík virkjun hafi neikvæð áhrif á umhverfið.

Á samskiptamiðlum má finna stór orð í garð ráðherra í tengslum við fréttina. Erfitt er að sjá nákvæmlega hversu mikla dreifingu þetta hefur fengið, en gera má ráð fyrir að fréttinni hafi verið dreift meira en 200 sinnum og ummælin í garð ráðherra séu hátt í 500. Í mörgum tilfellum er hann kallaður öllum illum nöfnum ásamt tali um landráð.

„Maður er ýmsu vanur en í þessu tilfelli er augljóst hver er ásetningurinn með þessari svokölluðu fjölmiðlaumfjöllun,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Fréttablaðið. „Hins vegar er okkur ráðlagt að líflátshótanir beri að taka alvarlega. Þær hótanir sem mér hafa borist á samfélagsmiðlum vegna þessarar fréttar hafa þegar verið settar í farveg hjá Ríkislögreglustjóra.“