Almenna reglan á íslenskum vinnumarkaði er sú að ráði starfskraftur, sem er á launum í uppsagnarfresti eða biðlaunum, sig í annað launað starf á uppsagnarfrestinum/biðlaunatímanum þá missir hann rétt til launa frá sínum gamla vinnuveitanda.

Fái hann jafn há eða hærri laun í nýja starfinu missir hann allan rétt til launa í uppsagnarfresti en séu launin í nýja starfinu lægri en í fyrra starfi á hann rétt á mismuninum frá fyrri vinnuveitanda.

Hægt er að komast fram hjá þessari meginreglu með samningum milli launþega og vinnuveitenda sem innifela skýr ákvæði um að laun í uppsagnarfresti skerðist ekki þó svo að til komi aðrar launagreiðslur.

Eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor var skipt um bæjar- og sveitarstjóra í mörgum sveitarfélögum. Algengt er að ráðningarsamningar sveitarstjóra tryggi þeim full laun út kjörtímabilið og/eða biðlaun í allt að sex mánuði. Rökin fyrir þessu eru þau að staða sveitarstjóra getur verið mjög ótrygg, þeir geta misst starfið fyrirvaralaust ef breytingar verða á meirihlutasamstarfi á miðju kjörtímabili eða meirihluti fellur í kosningum.

Aldís Hafsteinsdóttir, sem var bæjarstjóri í Hveragerði á síðasta kjörtímabili og réð sig sem sveitarstjóra í Hrunamannahreppi eftir að meirihluti Sjálfstæðismanna í Hveragerði féll í vor, heldur fullum biðlaunum og fríðindum í sex mánuði í Hveragerði þrátt fyrir að hún sé þegar komin í nýtt starf með áþekkum kjörum. Kostnaðurinn fyrir Hveragerði er um 20 milljónir og Aldís fær tæpar níu milljónir í vasann eftir skatta.

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, bendir í samtali við Fréttablaðið á að 14. grein laga um þingfararkaup taki fyrir svona tvöföld laun á biðlaunatímabili. Þar segir skýrt í 2. málsgrein að taki alþingismaður sem nýtur biðlauna „við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en þriggja eða sex mánaða tímabilið er liðið og skulu þá launagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður ef laun þau er nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en biðlaunagreiðslur til hans. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða honum launamismuninn til loka þriggja eða sex mánaða tímabilsins.“

Skipt var um sveitarstjóra í fjölmörgum sveitarfélögum eftir kosningarnar í vor. Í Kópavogi, Garðabæ og Seltjarnarnesi hættu bæjarstjórar sem starfað höfðu lengi og við tóku nýir oddvitar Sjálfstæðisflokksins. Í Reykjavík, Hafnarfirði og Árborg verður skipt um bæjarstjóra á miðju þessu kjörtímabili. Því er ljóst að útsvarsgreiðendur í þessum sveitarfélögum verða með tvo bæjarstjóra á launum í alla vega sex mánuði á þessu kjörtímabili.

Fréttablaðið hefur ekki upplýsingar um hvort fráfarandi bæjarstjórar í þessum sveitarfélögum njóta fullra biðlauna óháð því hvort þeir fái laun frá öðrum. Sé svo er biðlaunarétturinn, sem átti að vera öryggisnet, orðinn hvalreki fyrir fráfarandi bæjarstjóra.