Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur tilkynnt að öryggisgæsla verði aukin þegar Joe Biden tekur við embætti forseta næstkomandi miðvikudag. Að hennar sögn stóð það alltaf til að athöfnin yrði fámenn vegna COVID-19 en í ljósi óeirðanna við þinghúsið var ákveðið að auka öryggi enn frekar.
„Þetta er ekki eftirgjöf til hryðjuverkamannanna,“ sagði Pelosi á blaðamannafundi í kvöld en hún sagði að gripið hafi verið til aðgerða vegna hættu COVID-19 og hótana um frekara ofbeldi. „Í þessu tilfelli held ég að [of mikið öryggi] gæti verið nauðsynlegt.“
Ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar
Pelosi vísaði þar til óeirðanna í Washington, D.C., í síðustu viku en Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseti, hefur nú verið ákærður til embættismissis fyrir að hvetja til uppreisnar í tengslum við málið. Margir óttast nú að frekari óeirðir brjótist út á síðustu dögum kjörtímabils Trumps.
Fimm manns, þar af einn lögreglumaður, létust þegar óeirðir brutust út við þinghúsið í Washington, D.C., en stuðningsmenn Trumps réðust inn í þinghúsið þar sem þingmennirnir voru saman komnir til að staðfesta úrslit forsetakosninganna. Rýma þurfti bygginguna í kjölfarið en síðar um kvöldið staðfestu þingmennirnir úrslitin.
Ákærurnar á hendur Trump voru samþykktar innan fulltrúadeildarinnar síðastliðinn miðvikudag en öldungadeild þingsins mun á næstunni ákveða hvort Trump verði sakfelldur eða ekki. Það er þó ljóst að það gerist ekki fyrr en Biden tekur við embætti en að sögn Pelosi er verið að undirbúa réttarhöldin.
COVID-19 fyrsta verkefnið
Líkt og áður segir mun Joe Biden taka við embætti forseta þann 20. janúar 2021 en hann á þá erfitt verk fyrir höndum og verða viðbrögð við kórónaveirufaraldrinum hans fyrsta verk. Hann kynnti í gær 1,9 billjón dala efnahagspakka til þess að bregðast við áhrifum faraldursins og er vonast til að hægt verði að samþykkja hann sem fyrst.
„Við munum strax hefjast handa við að breyta hugsjón hins nýkjörna Biden í löggjöf sem verður samþykkt af báðum deildum [þingsins] og gerð að lögum,“ sagði Pelosi í yfirlýsingu um málið í gær. Í dag tók hún undir orð Bidens um að hjálp væri á leiðinni og sagði að um mikilvægt mál væri að ræða.
Blaðamannafund Pelosi í heild sinni má finna hér fyrir neðan: