Víða um Bandaríkin er unnið að því að herða öryggisgæslu fyrir kosningar sem fram fara 8. nóvember. Þá verður kosið um öll sæti í fulltrúadeildinni og 35 af 100 sætum í öldungadeildinni, auk þess sem kosið er um ríkisstjóra í fjölmörgum ríkjum.

Donald Trump, fyrrverandi forseti, heldur því fram án nokkurs rökstuðnings að brögð hafi verið í tafli er Joe Biden vann yfirgnæfandi sigur í forsetakosningunum fyrir tveimur árum og stuðningsfólk hans trúir lygum hans um að kosningarnar hafi verið ólögmætar.

Vegna þessa hafa kjörstjórnir víða um land ákveðið að herða öryggisgæslu af ótta við að einhver úr röðum stuðningsfólks forsetans muni ráðast gegn kjörstöðum og kjörstjórnum. Á skrifstofu kjörstjórnar í sýslu einni í Wisconsin hefur verið sett upp öryggisgler og myndavélar eftir að reynt var að brjótast inn á skrifstofuna í apríl. Æðsti yfirmaður kosningamála í Colorado hefur gripið til þess ráðs að fá sér lífverði eftir að einn stuðningsmanna Trumps, með tengsl við hægri öfgahópa, sagði að ráða ætti henni bana. Dæmi eru um að meðlimir kjörstjórna hafi sagt af sér af ótta við ofbeldi.