Í sumar stefnir í óboðlegar og óviðunandi vinnuaðstæður á bráðamóttöku Landspítalans þar sem ekki verður hægt að tryggja öryggi sjúklinga. Félag bráðalækna vekur athygli á þessu í yfirlýsingu sem var samþykkt á aðalfundi félagsins í gær.

Staða mönnunar í sumar verður verri en í verkfalli. Gert er ráð fyrir sjö vaktalínum í verkfalli en í sumar verða einungis fimm vaktalínur, stundum færri.

Félagið segir algjörlega ljóst að á bráðadeild Landspítala sé verið að stofna veikum og slösuðum sjúklingum í hættu með grafalvarlegri undirmönnun. Líkur á alvarlegum atvikum og jafnvel mannslátum í sjúklingaþjónustu séu yfirgnæfandi.

„Öryggi sjúklinga er ekki tryggt. Lífi og heilsu landsmanna er stefnt í hættu,“ segir í yfirlýsingunni.

Bergur Stefánsson, formaður félags bráðalækna, segir hættuna augljóslega fyrir hendi. Vinna á bráðamóttöku snýst um að leita á nálinni í heystakknum. Margir sjúklingar gætu komið inn á sama tíma með óþægindi fyrir brjósti en einn þeirra gæti farið í hjartastopp. Með slíkri undirmönnum er erfitt að tryggja að sjúklingur sé rétt greindur í tæka tíð. Sömuleiðis ef alvarlega slys koma upp getur biðtími orðið óeðlilega langur.

Aðspurður segir hann að gert sé ráð fyrir tveimur sérfræðilæknum á vinnusvæðum A og B á bráðamóttöku, þ.e. á neðri hæðinni þar sem mestu „akút“ málin eru. Í sumar verður einungis einn á vakt fyrir bæði svæðin.

„Æra starfsmanna og starfsleyfi til framtíðar liggur að veði, að ógleymdri hættunni sem við setjum sjúklinga í.“

Yfirstjórn ræður ekki við verkefnið

Bráðalæknar hafa gagnrýnt stöðuna frá árinu 2014. Þrátt fyrir fjöldann allan af úttektum og minnisblöðum frá embætti Landlæknis og óskir bráðalækna eftir fundum með stjórn Landspítalans og heilbrigðisráðherra, virðist yfirstjórn spítalans ekki ráða við verkefnið að sögn Bergs.

„Þetta er sama fólkið sem hefur setið lengi í stjórn og haft mörg ár til að aðhafast. Hvort þau séu hæf til verkefnisins þori ég ekki að segja,“ segir Bergur í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að bráðalæknar, eins og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, beri fyrst og fremst hag sjúklinga fyrir brjósti.

„Við viljum vinna vel, við viljum vera fagmenn, við viljum hafa öryggi sjúklinga númer eitt tvö og þrjú í þessu öllu saman. En æra starfsmanna og starfsleyfi til framtíðar liggur að veði, að ógleymdri hættunni sem við setjum sjúklinga í, sem er aðalatriðið,“ segir Bergur.

Vísa ábyrgð til forstjóra

Bráðalæknar hafa ítrekað óskað eftir fundum við sína stjórnendur og heilbrigðisráðherra, en ekki hefur orðið af því. Telur Bergur líklegt að æðstu ráðamenn séu einfaldlega illa upplýstir um hvað stjórnkerfið sé að gera.

„Landspítalinn þarf að vakna upp af dvala og viðurkenna að þetta sé óboðlegt.“

Félag bráðalækna krefst þess að landlæknir sinni sínu lögboðna eftirlitshlutverki af festu og knýi á um tafarlausar úrbætur af hálfu framkvæmdastjórnar og forstjóra Landspítala. Komi til alvarlegra atvika á bráðadeild sem rekja má til manneklu, ófullnægjandi starfsaðstöðu eða annarra tengdra þátta, vísa bráðalæknar allri ábyrgð á þeim atvikum til forstjóra Landspítala, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem æðsta yfirmanns heilbrigðismála, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Alþingis sem fer með fjárveitingarvald ríkisins.

Yfirlýsing aðalfundur Félags bráðalækna